Vona að áhorfendur hafi sömu skoðun

Ágúst Þór Gylfason tekur í spaðann á Jonathan Hendrickx en …
Ágúst Þór Gylfason tekur í spaðann á Jonathan Hendrickx en báðir komu til Breiðabliks í vetur.

„Þetta yrði framför frá því í fyrra, en við sem hópur viljum meira,“ segir Ágúst Gylfason sem tók við sem þjálfari Breiðabliks í vetur. Blikum er spáð 4.-5. sæti Pepsi-deildar karla í sumar.

„Okkur er spáð nærri Evrópusæti og við ætlum að berjast fyrir því. Það verður svo bara að koma í ljós hvort það verður 1., 2. eða 3. sæti,“ segir Ágúst.

Breiðablik hefur í vetur meðal annars fengið til sín hægri bakvörðinn Jonathan Hendrickx, sem áður lék með FH, frá Leixoes í Portúgal. Oliver Sigurjónsson er snúinn aftur að láni frá Bodø/Glimt í Noregi og fleiri hafa bæst í hópinn, en Daninn Martin Lund er farinn. Ágúst kveðst ánægður með stöðuna á sínu liði nú þegar Íslandsmótið er að hefjast:

„Ég er mjög sáttur. Við höfum æft á grasi síðan í síðustu viku og tökum margt með okkur úr æfingaferðinni fyrr í þessum mánuði. Við erum að smella saman, andlega og líkamlega, og hópurinn verður tilbúinn kl. 2 á laugardaginn gegn ÍBV. Það verður ærið verkefni fyrir okkur,“ segir Ágúst sem hvetur fólk til að mæta á Kópavogsvöll í sumar:

„Það eru jákvæðar blikur á lofti varðandi liðið. Við erum að skora mörk og verjast vel, svo þetta lítur allt vel út, en nú er stóra stundin að renna upp og við þurfum að sýna okkur og sanna í alvörunni. Það eru allir ótrúlega spenntir og þetta verður ógeðslega gaman. Ég vona að áhorfendur hafi sömu skoðun, mæti á völlinn og fylli stúkuna, og þetta verði bara geggjað ár fyrir okkur.“

Eins og Ágúst benti á mætir Breiðablik bikarmeisturum ÍBV á Kópavogsvelli kl. 14 á laugardag. Blikar sækja svo FH-inga heim í Hafnarfjörð mánudagskvöldið 7. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert