Fjórða skiptingin gerði gæfumuninn

Framarar unnu sigur á Húsavík í framlengdum leik.
Framarar unnu sigur á Húsavík í framlengdum leik. Twitter/Fram knattspyrna

Fram er komið áfram í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu eftir 2:1-sigur á Völsungi í framlengdum leik á Húsavík í 32-liða úrslitunum.

1. deildarlið Framara komst yfir eftir rúman hálftímaleik þökk sé slysalegum varnarleik heimamanna, sem leika í 2. deildinni. Gestirnir tóku þá hornspyrnu sem hrökk af tveimur varnarmönnum Völsunga og þaðan í netið en sjálfsmarkið skráðist á Elvar Baldvinsson.

Elvar átti þó eftir að bæta fyrir mistökin en hann jafnaði metin á 78. mínútu með fínu skallamarki eftir fyrirgjöf frá Ásgeiri Kristjánssyni. Það þurfti því að grípa til framlengingar á Húsavíkurvelli.

Fyrir þetta keppnistímabil samþykkti Alþjóðanefnd knattspyrnusambanda þá reglubreytingu sem heimilar liðum að gera sína fjórðu skiptingu í framlengingu. Framarar nýttu sér þetta og skiptu sínum fjórða manni, Má Ægissyni, inn á 98. mínum.

Sú skipting átti eftir að reynast örlagarík en Már skoraði sigurmark leiksins á 118. mínútu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert