Stjarnan vann úrvalsdeildarslaginn

Frá Samsung-vellinum í dag.
Frá Samsung-vellinum í dag. mbl.is/Hari

Stjarnan er komin áfram í 16 liða úrslit Mjólkurbikars karla í fótbolta eftir 2:1-sigur á Fylki í skemmtilegum leik í Garðabænum í dag. Sigurmarkið kom á 74. mínútu, en það var sjálfsmark.

Stjörnumenn byrjuðu mikið mun betur og var það algjörlega verðskuldað að Hilmar Árni Halldórsson kom þeim yfir á 17. mínútu úr vítaspyrnu. Davíð Þór Ásbjörnsson braut þá á Guðjóni Baldvinssyni innan teigs og Hilmar skoraði af öryggi úr spyrnunni. 

Fylkismenn efldust hins vegar við mótlætið og þung sókn þeirra í kjölfar marks Stjörnunnar bar árangur á 21. mínútu. Jonathan Glenn skoraði þá af stuttu færi eftir hornspyrnu og reyndist það síðasta mark hálfleiksins. 

Liðin skiptust á að sækja í jöfnum seinni hálfleik, en á 74. mínútu fengu Stjörnumenn hornspyrnu. Guðjón Baldvinsson skallaði að marki, en boltinn fór í Ara Leifsson og Ásgeir Börkur Ásgeirsson náði ekki að bjarga á línu, þrátt fyrir að vera vel staðsettur. 

Sex mínútum síðar fékk Ragnar Bragi Sveinsson beint rautt spjald, er boltinn var ekki nærri og ekkert brot átti sér stað. Ragnar sagði væntanlega eitthvað við dómarana sem þeim misbauð. Tíu Fylkismenn sóttu stíft á síðustu mínútunum en Haraldur Björnsson kom Stjörnunni til bjargar á fjórðu mínútu uppbótartímans er hann varði glæsilega frá Orra Sveini Stefánssyni. Nær komust Fylkismenn ekki og Stjarnan fer áfram í 16 liða úrslitin. 

Stjarnan 2:1 Fylkir opna loka
90. mín. Fylkismenn hársbreidd frá því að jafna. Ari á glæsilega fyrirgjöf meðfram marki Stjörnunnar en Glenn nær ekki að pota boltanum inn af stuttu færi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert