„Þessi lokakafli var bannaður innan sextán“

Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis.
Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjartslátturinn var mjög hraður hérna í lokin. Þessi lokakafli var eiginlega bannaður innan sextán,“ sagði Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis eftir 2:1 sigur á KA í annarri umferð Pepsi-deildar karla í Egilshöllinni í kvöld.

„Það var svo mikill hamagangur í þessu. En ég er hrikalega stoltur af strákunum. Það lá á okkur aðeins í lokin, við vorum að spila við mjög gott lið KA-manna og vissum að þeir myndu setja á okkur pressu. Við töluðum um það í hálfleik að gefa þeim ekki mark í upphafi seinni hálfleiks en síðan gerðum við einmitt það. Þá hefðu mörg lið brotnað niður en við gerðum það ekki, héldum áfram og fengum færi til að klára leikinn.“

„Við erum mjög sáttir með þennan leik. Það hefur verið stígandi í spili okkar. Við eigum ekki góðan leik gegn Víkingum, síðan góðan leik gegn Stjörnunni þar sem við fáum ekkert út úr því. En í þessum leik fáum við öll stigin og ég tel það sanngjarnt, menn voru tilbúnir að fórna lífi og limum fyrir þessi þrjú stig.“

Fylkir er nú komin með sín fyrstu þrjú stig á töfluna.

„Auðvitað er mikill léttir að fá fyrstu þrjú stigin á töfluna. Það skiptir ekki máli í þessari deild hverjum þú mætir, þetta eru allt erfiðir leikir. Við erum vel að þessu komnir og förum í alla leiki eins og þeir séu úrslitaleikir. Það var frábær stemning hér inni í Egilshöll, umgjörðin er hin sbesta og trommur og læti. Ég vorkenni liðum sem þurfa að spila utandyra á þessum tíma árs,“ sagði Helgi að lokum.

mbl.is