Sækja Blikar enn stig í Kaplakrika?

Þórarinn Ingi Valdimarsson á fullri ferð í leik Breiðabliks og …
Þórarinn Ingi Valdimarsson á fullri ferð í leik Breiðabliks og FH í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Liðin fjögur sem unnu leiki sína í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu um síðustu helgi mætast í kvöld þegar síðari þrír leikirnir í annarri umferð fara fram.

FH og Breiðablik eigast við í Kaplakrika, Víkingur og Valur í Fossvogi og loks er Suðurnesjaslagur þar sem Keflavík tekur á móti Grindavík. Allir leikirnir hefjast klukkan 19.15.

FH og Breiðablik hafa mæst í mörgum tvísýnum leikjum á undanförnum árum og Blikar hafa haft einstaklega gott lag á því að ná í stig í Kaplakrika, á einum af erfiðustu útivöllum landsins. Blikar hafa ekki tapað þar fyrir FH í fimm síðustu heimsóknum, eða frá árinu 2012. Liðin gerðu fjórum sinnum jafntefli í Krikanum á jafnmörgum árum frá 2013 til 2016 og í fyrra náðu Blikar í öll þrjú stigin þegar Arnþór Ari Atlason  tryggði þeim 1:0 sigur á FH í lokaumferð deildarinnar.

Á sama tíma hefur FH unnið Breiðablik sex sinnum í síðustu sjö viðureignum liðanna á Kópavogsvelli. Heimasigur er því afar sjaldgæft fyrirbæri þegar þessi tvö lið eiga í hlut.

FH vann Grindavík 1:0 á útivelli í fyrstu umferðinni og Blikar sigruðu Eyjamenn 4:1 á Kópavogsvelli.

Sigurður Egill Lárusson og Davíð Örn Atlason í leik Vals …
Sigurður Egill Lárusson og Davíð Örn Atlason í leik Vals og Víkings í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur tapaði síðast 2006 í Fossvogi

Víkingar fá Valsmenn í heimsókn og það er annar heimaleikur Víkinga í fyrstu tveimur umferðunum. Þeir sigruðu Fylki 1:0 í fyrsta leik á meðan Valur lagði KR 2:1 í spennuleik á Hlíðarenda.

Valur vann báða leiki liðanna í fyrra, fyrst 1:0 í Fossvogi þar sem Nicolas Bögild skoraði sigurmarkið og síðan 4:3 á Hlíðarenda þar sem Bjarni Ólafur Eiríksson gerði sigurmarkið í uppbótartíma.

Sigurður Egill Lárusson, uppalinn Víkingur, hefur verið sínu gamla félagi erfiður og skorað þrjú mörk gegn því í deildinni á síðustu tveimur árum.

Valsmenn hafa ekki tapað í síðustu sex heimsóknum í Fossvoginn í deildinni. Víkingar unnu síðast 3:1 árið 2006 þar sem Davíð Þór Rúnarsson gerði tvö markanna.

Óhætt er að segja að gæfa liðanna hafi snúist við eftir það því eftir þann sigur Víkinga höfðu Valsmenn aldrei unnið deildarleik á Víkingsvellinum, í átta tilraunum.

Tilþrif í leik Keflavíkur og Grindavíkur þegar bæði voru í …
Tilþrif í leik Keflavíkur og Grindavíkur þegar bæði voru í úrvalsdeild fyrir nokkrum árum. Ljósmynd/Víkurfréttir

Fyrsti Suðurnesjaslagur í sex ár

Keflavík og Grindavík mætast í fyrsta Suðurnesjaslag úrvalsdeildarinnar í sex ár, eða frá 2012 þegar bæði lið voru síðast í deildinni. Það ár unnu Keflvíkingar báða leikina, 4:0 í Grindavík þar sem Frans Elvarsson gerði tvö markanna og 2:1 í Keflavík þar sem Magnús S. Þorsteinsson skoraði sigurmarkið.

Liðin mættust í 1. deildinni árið 2016 og unnu þá hvort sinn heimaleikinn. Grindavík fór upp þá um haustið og Keflavík ári síðar.

Keflavík náði óvæntu jafntefli gegn Stjörnunni, 2:2, í fyrstu umferðinni en Grindavík tapaði 0:1 fyrir FH á heimavelli.

Keflavík hefur unnið 15 leiki og Grindavík 10 af 32 viðureignum félaganna í efstu deild frá því þau mættust þar fyrst árið 1995.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert