Var með hnút í maganum

Sölvi Geir í skallaeinvígi við Eið Aron Sigurbjörnsson í kvöld.
Sölvi Geir í skallaeinvígi við Eið Aron Sigurbjörnsson í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var frábært, ég viðurkenni að ég var drullustressaður fyrir leikinn þótt ég hafi verið lengi í þessu,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkings, en hann lék sinn fyrsta deildarleik fyrir liðið í 14 ár er Víkingur gerði markalaust jafntefli við Íslandsmeistara Vals á heimavelli í 2. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta. 

Sölvi hefur leikið í rúman áratug sem atvinnumaður, en hann segir undirbúninginn vera þann sama fyrir leik sem þennan.

„Þetta kom dálítið aftan að mér en það er kannski pressan frá sjálfum mér að standa mig vel í Víkingstreyjunni og þess vegna var ég með hnút í maganum. Þetta er svipað. Þú undirbýrð þig og ert með þína rútínu. Þetta er svipaður undirbúningur fyrir hvern leik. Fyrir mér skiptir mjög miklu máli að standa mig vel í Víkinni og þess vegna kom þessi hnútur í magann fyrir leikinn.“

Sölvi var ánægður með leik Víkings í kvöld og segir hann liðið hafa fengið færi til þess að ná í þrjú stig. 

„Sem varnarmaður er það aðalmarkmiðið að halda hreinu og okkur tókst það í dag. Yfir heildina var varnarleikurinn okkar frá fremsta til aftasta manns mjög góður. Við vorum alls ekki síðri en Valur í leiknum og við hefðum getað stolið sigrinum. Við fengum færin til þess en í Valsmenn komu sterkari inn í þetta í seinni hálfleik, en mér finnst við eiga ögn meira skilið en þeir.“

„Völlurinn er erfiður og það er erfitt að spila flottan fótbolta. Þá þarf að fara yfir í þennan stíl og setja hann langan. Við vorum ekki að taka sénsa á boltanum og spila honum í gegnum miðjuna, það er hægt að glata honum þar, svo við fórum varfærnislega í þennan leik, en við gerðum allt rétt í dag. Við vorum ekki að tapa boltanum á hættulegum stöðum og leyfa Valsmönnum að sækja hratt á okkur.“

Flestir spáðu Víkingum slæmu gengi í ár, en Fossvogsliðið er komið með fjögur stig eftir tvo leiki. 

„Miðað við hvernig þið spáðuð þá er þetta alveg frábært. En við spáum ekkert í spánum, við höfum mikla trú á okkur og þessi úrslit hingað til eru ekki búin að koma okkur á óvart. Við ætlum að halda þessu áfram,“ sagði Sölvi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert