Breiðablik enn með fullt hús stiga

Stefanía Ásta Tryggvadóttir og Alexandra Jóhannsdóttir eigast við í kvöld.
Stefanía Ásta Tryggvadóttir og Alexandra Jóhannsdóttir eigast við í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik er áfram með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, en liðið sótti þrjú stig í Kórinn í kvöld með 3:1-sigri á nýliðum HK/Víkings.

Leikurinn var jafn framan af en eftir rúman hálftíma kom fyrsta mark leiksins. Það skoraði Berglind Björg Þorvaldsdóttir eftir sendingu frá Selmu Sól Magnúsdóttur og staðan orðin 1:0 fyrir Breiðablik. Það virtist slá heimakonur algjörlega út af laginu og Blikar höfðu mikla yfirburði það sem eftir lifði hálfleiksins.

Fimm mínútum eftir mark Berglindar lagði hún upp annað mark Blika fyrir Fjollu Shala, en hún skoraði þá með laglegu skoti úr teignum. Staðan 2:0 fyrir Breiðablik.

Miðað við yfirburðina mínúturnar fyrir hlé og snemma í síðari hálfleiknum virtist vera formsatriði fyrir Blika að klára leikinn. Eftir því sem leið á fór hins vegar að grípa um sig værukærð og það nýtti HK/Víkingur sér. Þegar tæpar 25 mínútur voru eftir skoraði Kristina Maksuti, en hún slapp þá ein í gegn eftir skalla Fatma Kata. Staðan nú 2:1 fyrir Breiðablik og nóg eftir.

Lokamínúturnar voru spennandi þar sem liðin sóttu á báða bóga. Andrea Rán Hauksdóttir átti skot í stöngina á marki HK/Víkings þegar skammt var eftir en í uppbótartíma fékk Breiðablik vítaspyrnu þegar Björk Björnsdóttir, sem átti stórgóðan leik í marki HK/Víkings, felldi Selmu Sól. Agla María Albertsdóttir fór á punktinn og tryggði 3:1 sigur Breiðabliks.

Breiðablik er með 9 stig eins og Þór/KA eftir þrjá leiki en HK/Víkingur er með þrjú stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

HK/Víkingur 1:3 Breiðablik opna loka
90. mín. HK/Víkingur fær hornspyrnu Það er kraftur í heimakonum í leit að jöfnunarmarkinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert