„Ég er bara bjartsýn á framhaldið“

Björk Björnsdóttir fagnar sigri í 1. deild með HK/Víkingi í …
Björk Björnsdóttir fagnar sigri í 1. deild með HK/Víkingi í haust. mbl.is/Golli

Björk Björnsdóttir átti stórgóðan leik í marki HK/Víkings þegar liðið tapaði fyrir Breiðabliki, 3:1, í þriðju umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Þrátt fyrir tapið var HK/Víkingur inni í leiknum allt fram í uppbótartíma og Björk átti stóran þátt í því.

Sjá: Breiðablik enn með fullt hús stiga

„Við vorum ekki alveg nógu góðar í fyrri hálfleik, en rifum okkur upp í seinni. Við ákváðum að gefa þeim leik strax í byrjun, en spennustigið var kannski ekki alveg rétt,“ sagði Björk við mbl.is, en það var svolítið rothögg fyrir liðið þegar Breiðablik skoraði eftir um hálftíma leik.

„Við byrjuðum mjög vel og áttum færi í fyrri hálfleik, en svo þegar þær skora kom tíu mínútna kafli sem var ekki nógu góður og þær skora annað. Við komum hins vegar sterkar inn í seinni hálfleikinn,“ sagði Björk og tók undir að markið, 2:1, hefði gefið liðinu mikið.

HK/Víkingur er að spila á meðal þeirra bestu í fyrsta sinn í fimm ár eða frá árinu 2013. Liðið hefur sýnt fína takta í upphafi tímabils, vann FH í fyrsta leik en hefur svo tapað fyrir Þór/KA og nú Breiðabliki.

„Þetta er bara fínt, en við erum í erfiðri törn gegn Þór/KA, Breiðabliki, Stjörnunni og Val í röð. Við áttum fullan séns á móti Þór/KA og fullan séns hér, svo ég er bara bjartsýn á framhaldið. Mér líst mjög vel á liðið, það er góð blanda af ungum, gömlum og útlenskum. Markmiðið er svo að taka stig úr hverjum leik, eitt eða þrjú,“ sagði Björk Björnsdóttir, markvörður HK/Víkings, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert