Hleyptum þessu upp í smá spennu

Sonný Lára Þráinsdóttir.
Sonný Lára Þráinsdóttir. mbl.is/Golli

Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður og fyrirliði Breiðabliks, var skiljanlega sátt við þrjú stig eftir 3:1-sigur gegn HK/Víkingi í þriðju umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í Kórnum í kvöld. Sigur Blika var þó ekki í höfn fyrr en í uppbótartíma.

Sjá: Breiðablik enn með fullt hús stiga

„Já, við hleyptum þessu upp í smá spennu, fengum á okkur mark 2:1, og þá gat allt gerst. En svo settum við eitt í lokin og náðum í þrjú stig,“ sagði Sonný Lára við mbl.is. Hún vildi þó ekki meina að værukærð hafi farið að grípa um sig hjá Blikum í síðari hálfleik.

„Nei kannski ekki værukærð, en við fórum kannski aðeins úr skipulagi. Þær eru mjög flottar, spiluðu vel og gáfu okkur hörku leik svo þetta var erfitt. En við kláruðum þetta,“ sagði Sonný Lára.

Lið Breiðabliks tók miklum breytingum í vetur, en þær Fanndís Friðriksdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Rakel Hönnudóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir eru allar farnar út í atvinnumennsku frá síðasta sumri. Í þeirra stað komu ungar og efnilegar stelpur sem hafa slegið í gegn.

„Við missum hörkuleikmenn en fengum mjög góðar ungar stelpur inn og mér leist bara vel á þetta frá byrjun. Það þarf samt að gefa þessum tíma og við notum hvern leik til þess að bæta okkur. Þetta er geggjaður hópur og við þurfum bara að halda áfram, halda haus,“ sagði Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður og fyrirliði Breiðabliks, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert