Brandur var undrandi á styrk FH-liðsins

Brandur Olsen í baráttu við Almarr Ormarsson.
Brandur Olsen í baráttu við Almarr Ormarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Færeyingurinn Brandur Olsen átti góðan leik fyrir FH þegar liðið vann útisigur á Fjölni, 3:2, í fjörugum leik í Grafarvogi. Morgunblaðið tekur Brand fyrir að lokinni 3. umferð Pepsi-deildarinnar.

Brandur fékk MM fyrir frammistöðu sína í Egilshöllinni en hann skoraði fyrsta mark FH-inga í leiknum.

„Leikurinn gegn Breiðabliki var ekki sá besti hjá mér og mér fannst ég ekki sýna allar mínar bestu hliðar á móti Fjölni heldur en ég skoraði alla vega mark. Við unnum þann leik og það skiptir mestu máli. Á heildina litið hefur mér gengið sæmilega en ég þarf að bæta mig frekar. Ég tek einn leik fyrir í einu en það er orðið langt síðan ég hef tekið þátt í þremur leikjum í röð. Ég er viss um að ná mér vel á strik,“ sagði Brandur þegar Morgunblaðið spjallaði við hann.

Ólafur hristir hópinn saman

FH gerði jafntefli við Grindavík á útivelli í 1. umferð og tapaði næst fyrir Breiðabliki á heimavelli áður en kom að útisigrinum gegn Fjölni. „Þegar ég kom var ég undrandi á því hversu sterkur leikmannahópur FH er. Gildir þá einu hvort litið er til þeirra sem byrja inn á eða þeirra sem byrja á varamannabekknum. Enda er mikil barátta um sæti í liðinu. Vissulega hafa orðið breytingar á hópnum á milli tímabila og við slíkar aðstæður getur tekið tíma fyrir lið að finna taktinn. En við sjáum nú þegar tengingar á milli leikmanna á vellinum og Óli (Ólafur Kristjánsson þjálfari) er duglegur að hrista hópinn saman,“ sagði Brandur en hann var einnig undir stjórn Ólafs hjá Randers í Danmörku.

Sjá allt viðtalið við Brand í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag og þar getur einnig að líta lið 3. umferðarinnar og stöðuna í M-gjöfinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert