Sagði honum að hann færi ekki neitt

Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það varð ljóst í gærkvöld að miðjumaðurinn Guðjón Pétur Lýðsson verður um kyrrt í herbúðum Vals. Hann óskaði eftir því fyrr í vikunni að fá að fara frá liðinu og hafði Valur samþykkt tilboð frá ÍBV og KA í leikmanninn. Ekkert varð úr félagaskiptunum en félagaskiptaglugginn lokaðist á miðnætti í gær.

Guðjón Pétur, sem átti frábært tímabil með Íslandsmeisturunum í fyrra, hefur ekki verið sáttur við sitt hlutskipti á tímabilinu en hann hefur byrjað á varamannabekknum í tveimur af þremur fyrstu leikjum Vals í Pepsi-deildinni. Hann fór svo þess á leit við forráðamenn Vals að fá að leita sér að nýju liði.

Guðjón Pétur sá sér ekki fært að fara til ÍBV eða KA af fjölskylduástæðum. Samkvæmt heimildum mbl.is sýndu Breiðablik og KR mikinn áhuga á að fá Guðjón til liðs við sig en Valsmenn voru ekki reiðbúnir að láta hann fara til þeirra liða.

„Við Guðjón Pétur urðum ósammála og það varð ágreiningur á milli okkar en ég hafði svo samband við hann í gærkvöld og sagði honum að hann færi ekki neitt. Ég boðaði hann á minn fund og við ræddum saman í morgun. Við erum búnir að leysa málin og hann mætir á æfingu í dag eins ekkert hafi í skorist,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, við mbl.is.

Valsmenn, sem hafa fimm stig eftir þrjá fyrstu leiki sína í deildinni, fá Stjörnuna í heimsókn á föstudagskvöldið.

mbl.is