Búnir að gera okkar heimavinnu

Óskar Örn Hauksson umkringdur Stjörnumönnum.
Óskar Örn Hauksson umkringdur Stjörnumönnum. mbl.is/Hari

Það er sannkallaður stórleikur í Frostaskjólinu í kvöld en þá spilar KR sinn fyrsta heimaleik í Pepsi-deildinni og fær topplið Breiðabliks í heimsókn.

KR-ingar eru með 4 stig í 7. sæti deildarinnar eftir fyrstu þrjár umferðarnar en Blikarnir er með fullt hús á toppi deildarinnar.

„Það er mikil spenna í okkar herbúðum fyrir leiknum og ekki síst þar sem þetta er fyrsti heimaleikur okkar. Við erum búnir að spila alla þrjá leikina í deildinni á útivelli ásamt bikarleiknum svo það er löngu orðið tímabært að spila í Frostaskjólinu. Völlurinn hefur oft verið betri en vonandi kemur það ekki niður á leiknum eða vindurinn sem er spáð í kvöld,“ sagði KR-ingurinn Óskar Örn Hauksson í samtali við mbl.is.

„Það er ekkert annað í boði fyrir okkur en að vinna leikinn í kvöld. Menn gera sér grein fyrir mikilvægi leiksins. Blikarnir hafa farið virkilega vel af stað og frammistaða þeirra hefur ekki komið mér neitt á óvart. Við erum búnir að gera okkar heimavinnu og teljum okkur eiga svör við þeirra leik. Við ætlum okkur sigur og setja þar með mótið upp í loft og koma okkur í betri stöðu,“ sagði fyrirliði KR-liðsins, sem á enn eftir að komast á blað en fimm mörk KR í deildinni hafa skorað Pálmi Rafn Pálmason (3), Björgvin Stefánsson og Atli Sigurjónsson.

„Er ekki bara tilvalið að opna markareikninginn í kvöld,“ sagði Óskar og hló en þessi lunkni og skemmtilegi fótboltamaður hefur skorað 65 mörk í efstu deild í 265 leikjum.

mbl.is