Jafntefli sjötta árið í röð?

André Bjerregaard og Jonathan Hendrickx í lelik Breiðabliks og KR ...
André Bjerregaard og Jonathan Hendrickx í lelik Breiðabliks og KR i vetur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik freistar þess í kvöld að vinna fjórða leik sinn í jafnmörgum umferðum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu en Kópavogsliðið heimsækir KR-inga í Vesturbæinn klukkan 19.15. Fjórir leikir eru á dagskrá í deildinni í kvöld.

KR leikur þar með sinn fyrsta heimaleik á tímabilinu en þrír fyrstu leikir Rúnars Kristinssonar og lærisveina hans hafa farið fram á útivöllum. Þeir eru með 4 stig en Blikar sem hafa byrjað mótið af miklum krafti eru með 9 stig af 9 mögulegum og þriggja stiga forystu í deildinni þegar flautað verður til leiks.

Ef marka má söguna eru miklar líkur á jafntefli á KR-vellinum. Fimm síðustu leikir liðanna þar hafa nefnilega endað þannig, fjórir með markatölunni 1:1 og einu sinni 0:0. Í fyrra komust Blikar yfir með sjálfsmarki Vesturbæinga en Óskar Örn Hauksson jafnaði metin. KR vann síðan seinni leikinn í Kópavogi, 3:1.

Blikar hafa aðeins tapað einu sinni í síðustu átta heimsóknum í Vesturbæinn en það var árið 2011 þegar þeir steinlágu, 4:0. Ári síðar hefndu þeir með því að vinna 4:0 á KR-vellinum!

Félögin hafa mæst 62 sinnum í efstu deild frá 1971. KR hefur unnið 28 leiki og Breiðablik 14 en 20 hafa endað með jafntefli. 

Fyrsti leikur liðanna árið 1971 endaði 0:0 en Blikar unnu seinni leikinn það ár, 1:0, á þáverandi heimavelli sínum Melavellinum og varnarjaxlinn Haraldur Erlendsson skoraði sigurmarkið.

Jonathan Glenn í búningi ÍBV í leik gegn Fylki fyrir ...
Jonathan Glenn í búningi ÍBV í leik gegn Fylki fyrir þremur árum. Hann er leikmaður Fylkis í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eyjamenn mæta í Egilshöllina

Fylkir tekur á móti ÍBV í Egilshöll klukkan 18.00 en þetta er annar heimaleikurinn af þremur sem Árbæingar spila innandyra áður en völlurinn þeirra verður tilbúinn með gervigrasi. 

Fylkismenn eru komnir með fjögur stig eftir þrjár umferðir og voru nærri því að vinna Íslandsmeistara Vals á dögunum en liðin skildu jöfn, 2:2. ÍBV er með eitt stig sem liðið fékk á heimavelli gegn Fjölni en hefur tapað útileikjunum gegn Breiðabliki og KA.

Fylkir og ÍBV mættust síðast 2016 og unnu hvort sinn útileikinn. ÍBV vann 3:0 í Árbænum þar sem Mikkel Maigaard, Sindri Snær Magnússon og Sigurður Grétar Benónýsson skoruðu. Fylkir vann 2:1 í Eyjum með tveimur mörkum frá Alberti Brynjari Ingasyni en Elvar Ingi Vignisson gerði mark ÍBV.

ÍBV hefur gengið vel í Árbænum á undanförnum árum og sigrað þar fimm sinnum í sjö síðustu heimsóknum í úrvalsdeildinni. Spurning hvernig Eyjamenn kunna við sig í Egilshöllinni.

Liðin hafa aðeins gert þrjú jafntefli í 34 viðureignum í deildinni síðan þau mættust þar fyrst árið 1993. ÍBV hefur unnið 17 leiki en Fylkir 14.

Davíð Þór Viðarsson og Elfar Árni Aðalsteinsson í leik FH ...
Davíð Þór Viðarsson og Elfar Árni Aðalsteinsson í leik FH og KA í Kaplakrika í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír sigrar FH í 22 leikjum

FH tekur á móti KA í Kaplakrika klukkan 18.00 en Hafnfirðingarnir eru í öðru sæti fyrir umferðina með 6 stig og KA er skammt undan með 4 stig.

Báðir leikir liðanna í fyrra enduðu með jafntefli. Fyrst 2:2 í Kaplakrika þar sem Ásgeir Sigurgeirsson jafnaði fyrir KA í lokin en Hallgrímur Mar Steingrímsson hafði skorað fyrsta mark leiksins. Steven Lennon og Kristján Flóki Finnbogason skoruðu fyrir FH. Seinni leikur liðanna, sem fór fram á Akureyri um verslunarmannahelgina, endaði 0:0.

Það voru fyrstu leikir liðanna í þrettán ár, eða frá því FH tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í lokaumferðinni 2004 með því að vinna KA 2:1 á Akureyrarvelli. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson skoraði þar sigurmark FH-inga rétt fyrir leikslok og sendi norðanmenn endanlega niður um deild.

Sá sigur er aðeins þriðji sigur FH á KA í 22 leikjum liðanna í efstu deild en þau mættust þar í fyrsta skipti árið 1978. Þá fór leikurinn í Kaplakrika 0:0 en KA vann 1:0 á Akureyrarvelli með marki frá Gunnari Blöndal.

KA hefur unnið FH átta sinnum, síðast 1:0 í Kaplakrika árið 2002 þar sem Neil McGowan skoraði sigurmarkið. Ellefu leikir af þessum 22 hafa endað með jafntefli.

Gunnar Már Guðmundsson Fjölnismaður reynir skot að marki Keflavíkur í ...
Gunnar Már Guðmundsson Fjölnismaður reynir skot að marki Keflavíkur í leik liðanna árið 2015. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þjálfararnir skoruðu í fyrsta leiknum

Nýliðar Keflavíkur taka á móti Fjölni í uppgjöri tveggja liða sem eru án sigurs í fyrstu þremur umferðunum. Fjölnir er með tvö stig en Keflvíkingar er eru með eitt stig og hafa ekki skorað mark í tveimur leikjum í deild og einum í bikar síðan þeir gerðu 2:2 jafntefli við Stjörnuna í fyrstu umferðinni.

Keflavík og Fjölnir mættust síðast í efstu deild árið 2015. Fjölnir vann þá fyrri leikinn í Grafarvogi, 1:0, með marki Þóris Guðjónssonar. Síðan varð jafntefli 1:1 í Keflavík þar sem Kennie Chopart skoraði fyrir Fjölni en Martin Hummervoll fyrir Keflvíkinga.

Af átta leikjum liðanna í efstu deild frá 2008 hafa fjórir endað með jafntefli og hvort lið hefur sigrað tvívegis. Ólafur Páll Snorrason, núverandi þjálfari Fjölnis, og Gunnar Már Guðmundsson, aðstoðarþjálfari liðsins, skoruðu mörkin í óvæntum útisigri Fjölnis, 2:1, í fyrsta leik félaganna í deildinni árið 2008. Fyrir Keflavík skoraði Guðmundur Steinarsson, sem var aðstoðarþjálfari Fjölnis í fyrra.

mbl.is