Ég þekki núna báðar hliðar

Ólafur Ingi á æfingunni á Laugardalsvellinum í dag.
Ólafur Ingi á æfingunni á Laugardalsvellinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Ingi Skúlason þurfti að bíta í það súra epli að sitja heima þegar Ísland lék á sínu fyrsta stórmóti á EM í Frakklandi fyrir tveimur árum. Ólafur var ekki valinn í landsliðshópinn en hann er í landsliðshópnum sem leikur fyrir Íslands hönd á HM í Rússlandi.

„Ég þekki núna báðar hliðar. Það er taugatrekkjandi að bíða eftir því að fá að vita hvort þú sért valinn eða ekki. Maður er á nálum þessar síðustu þrjár til fjórar vikur áður en hópurinn er tilkynntur og þessi óvissa er óþægileg. Ég bjó mig alveg undir það að verða ekki valinn í HM-hópinn en blessunarlega er ég þessum hópi og er mjög ánægður og stoltur með það,“ sagði Ólafur Ingi í samtali við mbl.is fyrir æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvellinum í dag.

Spurður út í möguleika íslenska liðsins á HM og hvort hann hafi áhyggjur af meiðslum lykilmanna á borð við Gylfa Þór Sigurðsson og fyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar segir Ólafur Ingi;

„Ég tel það of snemmt að hafa einhverjar áhyggjur af Gylfa og Aroni. Það eru fjórar vikur til stefnu og þekkjandi þá tvo mjög vel þá veit ég að þessir miklu atvinnumenn með góða skrokka verða 100% klárir þegar á hólminn er komið.

Ég held að fólki skilji það meira og meira að það er ekki hægt að vanmeta íslenska landsliðið lengur. Það var gríðarlegt afrek að komast á HM eftir þessa frábæru velgengni á EM. Það er líka ótrúlegt afrek að hafa unnið riðilinn sem var mjög sterkur. Í undankeppninni fyrir EM tóku liðin okkur kannski ekki alvarlega en í undankeppninni fyrir HM þá vissu liðin að við værum með öflugt lið. Liðin óttast okkur núna en við verðum bara að halda okkar striki. Við erum ekki að fara á HM bara til að vera með. Við viljum gera svipaða hluti og vonandi betri í Rússlandi. Markmið okkar númer eitt, tvö og þrjú er að komast upp úr riðlinum. Það verður mjög erfitt enda riðillinn sterkur en það hefur ekkert stoppað okkur hingað til. Við erum jákvæðir og fullir sjálfstrausts,“ sagði Ólafur Ingi.

Er á heimleið

Ólafur Ingi hefur spilað með tyrkneska liðinu Karabükspor undanfarin tvö tímabil. Liðið er fyrir löngu fallið úr úrvalsdeildinni. Lokaumferðin er leikin um helgina og mætir Karabükspor liði Trabzonspor í dag en Ólafur fékk leyfi til að sleppa þeim leik og halda heim á leið. Ólafur Ingi býst fastlega við því að flytja heim í sumar.

„Ég reikna með að mínum ferli í Tyrklandi sé lokið. Ég hef fengið nokkur tilboð frá tyrkneskum liðum en ég stefni á að koma heim. Fjölskyldan er flutt heim og ég mun skoða það á næstunni hvað ég mun taka fyrir hendur hér heima. Ég held að flestir viti að Fylkir er mitt félag sem ég hef sterkar taugar til en ég lagt þetta aðeins á ís í bili og nú einbeiti ég mér bara að HM,“ sagði Ólafur Ingi sem er 35 ára gamall og á að baki 65 leiki með íslenska A-landsliðinu.

mbl.is