Er með jákvæðar væntingar fyrir HM

Jón Daði á landsliðsæfingunni á Laugardalsvellinum í dag.
Jón Daði á landsliðsæfingunni á Laugardalsvellinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er bara ferskur eftir langt og strangt tímabil með Reading,“ sagði landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson í samtali við mbl.is fyrir æfingu íslenska landsliðsins í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í dag.

Það var fámennt en góðmennt á æfingunni en aðeins fimm leikmenn úr landsliðshópnum eru byrjaðir að æfa fyrir HM en auk Jóns Daða eru það Kári Árnason, Ólafur Ingi Skúlason, Hörður Björgvin Magnússon og Ólafur Ingi Skúlason.

„Ég fékk átta daga frí eftir að tímabilinu og náði þar með að fá smá hvíld og hreinsa hugann. Þú vilt ekki upplifa það sem fótboltamaður að vera í fallbaráttu tvö ár í röð en ég tók það jákvæða úr þessu. Persónulega átti ég gott tímabil og ég tek það með mér í þennan undirbúning fyrir HM,“ sagði Jón Daði, sem varð markakóngur Reading á tímabilinu.

„Ég er orðinn svakalegur spenntur fyrir HM enda stutt í mótið. Það er gott að vera kominn heim og hitta liðsfélaganna og komast þannig í landsliðsgírinn. Ég er með jákvæðar væntingar fyrir HM. Það er alltaf markmiðið að gera betur en síðast. Við gerðum flotta hluti á EM en vonandi getur við gert enn betur á stærri vettvangi í Rússlandi. Það var mikill skóli fyrir okkur að vera með á EM og er gott veganesti fyrir HM. Nú vita flestir okkar hvernig er að fara á stórmót. Við vitum að þetta verður erfitt og krefjandi,“ sagði Selfyssingurinn við mbl.is.

Tveir af lykilmönnum landsliðsins, Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson hafa glímt við meiðsli og eru báðir í endurhæfingu. Spurður hvort hann hafi áhyggjur af þeim sagði Jón Daði;

„Það er ömurlegt að staða þeirra sé með þessum hætti. Aron og Gylfi hafa verið mikill kjarni í okkar liði undanfarin ár eins og við öllum vitum. En það eru líka flottir strákar til staðar líka. En við vonum allir að þeir verði klárir í slaginn áður en HM hefst.“

mbl.is