Slagur toppliða síðasta árs

Patrick Pedersen úr Val og Daníel Laxdal úr Stjörnunni eigast …
Patrick Pedersen úr Val og Daníel Laxdal úr Stjörnunni eigast við. Lið þeirra mætast í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjórðu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á að ljúka í kvöld með fjórum leikjum en þeir áttu upphaflega að vera tveir.

KR og Breiðablik áttu að mætast í gærkvöld, sem og Keflavík og Fjölnir, en báðum var seinkað um sólarhring vegna veðurs. Fjallað er um þá hér:

Valur fær Stjörnuna í heimsókn á Hlíðarenda og Víkingur tekur á móti Grindavík í Fossvoginum. Allir leikir kvöldsins hefjast klukkan 19.15.

Stjörnunni gengur vel á Hlíðarenda

Valsmenn mæta taplausir til leiks og Stjörnumenn án sigurs, en liðin eiga það hinsvegar sameiginlegt að hafa gert tvö jafntefli hvort. Þetta eru liðin sem enduðu í fyrsta og öðru sæti deildarinnar í fyrra, þeim var báðum spáð toppbaráttu, og vel það í tilfelli Valsmanna, þannig að stigin sem eru í boði  í kvöld eru sérstaklega dýrmæt.

Stjörnumenn hafa átt góðu gengi að fagna á Hlíðarenda en þar hafa þeir aðeins einu sinni tapað í deildinni á undanförnum sjö árum. Í fyrra skildu liðin jöfn þar sem Hólmbert Aron Friðjónsson kom Stjörnunni yfir en Bjarni Ólafur Eiríksson jafnaði fyrir Val, 1:1. Bjarni var aftur á ferðinni í seinni leik liðanna í Garðabæ og skoraði í 2:1 sigri Valsmanna. Bakvörðurinn reyndi hefur haft lag á að skora gegn Stjörnunni því hann gerði líka mark gegn Garðabæjarliðinu árið 2013.

Heimasigrar eru sjaldgæfir í leikjum liðanna því Valur hefur ekki tapað í Garðabæ undanfarin fimm ár. Í heildina hefur Valur unnið 11 leiki en Stjarnan 8 af 28 viðureignum félaganna í efstu deild frá því Stjarnan lék þar fyrst árið 1990.

Vladimir Tufegdzic og Sam Hewson í leik Víkings og Grindavíkur …
Vladimir Tufegdzic og Sam Hewson í leik Víkings og Grindavíkur í fyrra. mbl.is/Eggert

Rufu jafnteflahefðina í fyrra

Víkingur og Grindavík unnu hvort annað á útivelli í deildinni í fyrra og brutu með því upp mikla jafnteflahefð. Félögin höfðu fram að því gert sjö jafntefli í átta viðureignum þeirra á milli í efstu deild en þar mættust þau í fyrsta skipti árið 1999.

Grindavík vann fyrst dramatískan sigur á Víkingsvellinum, 2:1, þar sem Andri Rúnar Bjarnason skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. Víkingar svöruðu með 2:1 sigri í Grindavík síðar um sumarið þar sem Vladimir Tufegdzic og Ívar Örn Jónsson komu þeim tveimur mörkum yfir áður en Andri Rúnar skoraði fyrir Grindavík, aftur í uppbótartíma.

Bæði lið geta verið nokkuð sátt við sína byrjun á mótinu en Víkingar eru taplausir með 5 stig eftir þrjá leiki og Grindvíkingar eru með 4 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert