Býður ekki upp á brasilískan bílastæðabolta

Það var hart tekist á á Extra-vellinum í kvöld.
Það var hart tekist á á Extra-vellinum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Auðvitað hefðum við viljað taka öll stigin og leikurinn spilaðist þannig fyrstu 35 mínúturnar. Við áttum að vera búnir að skora 1-2 mörk og koma okkur í góða stöðu en við eigum það dálítið til að hleypa mörkum á okkur,“ sagði hnugginn Óskar Örn Hauksson eftir að KR varð að láta sér nægja 1:1-jafntefli gegn Fjölni á Extra-vellinum í 5. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

KR-ingar réðu lögum og lofum í upphafi leiks eða þangað til að heimamenn komust yfir með marki Arnórs Breka Ásþórssonar á 35. mínútu. Gestunum tókst svo að jafna úr vítaspyrnu Pálma Rafns Pálmassonar í upphafi síðari hálfleiks en tókst svo ekki að láta kné fylgja kviði á endaköflum leiksins.

„Nei, við vorum í smá basli síðustu 10-15 mínúturnar. Þeir eru með vindinn í bakið og koma með langa bolta, það er bara eins og það er. Svo endar þetta bara í jafntefli en við hefðum viljað vinna þennan leik, klárlega.“

Hann var ekki áferðafallegur fótboltinn sem var spilaður í Grafarvoginum í kvöld og segir Óskar ekki við öðru að búast á meðan aðstæður eru svona.

„Þetta er náttúrulega þreytt umræða en aðstæður eru ekki að bjóða upp á einhvern brasilískan bílastæðabolta eins og góður maður sagði. Þá verður þetta oft svona, það er rok og þetta leysist upp í langan bolta en vonandi lagast það,“ sagði hann að endingu.

Óskar Örn Hauksson var svekktur með stigið.
Óskar Örn Hauksson var svekktur með stigið. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert