„Meira talað um stríðsmenn heldur en leik og leikstíl“

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH-inga á hliðarlínunni í Eyjum í dag.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH-inga á hliðarlínunni í Eyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH-inga, var ekki sáttur með eina stigið sem hans menn fengu í Vestmannaeyjum eftir 0:0 jafntefli við Eyjamenn í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

„Nei, ég er ekki sáttur með eitt stig út úr þessum leik í dag. Eflaust eins og Eyjamenn, vildum við vinna leikinn og á fyrstu fimmtán eða tuttugu mínútunum „dóminerum“ við leikinn. Við fáum þannig færi að auðvitað hefði ég viljað sjá eitthvað af þeim fara í netið, þannig að þegar uppi er staðið er ég ekki sáttur með að fá eitt stig,“ sagði Ólafur en á fyrsta korteri leiksins var í raun aðeins eitt lið á vellinum. 

FH-ingar héldu sama byrjunarliði frá síðasta leik, hvað spilaðist öðruvísi, frá síðasta leik liðsins, gegn KA?

„Í sjálfu sér var það ekkert, spilamennskan fyrstu fimmtán eða tuttugu var mjög góð. Eftir það hættum við að gera það sem við náðum að gera í byrjun og ÍBV komst meira inn í leikinn. Við áttum í brasi með sendingar og ákvarðanatöku á síðasta þriðjungi, ÍBV komstu iðulega í stöðu og náðu að verjast á mörgum mönnum. Það var erfitt að brjóta þá,“ sagði Ólafur en Eyjamenn voru hættulegir í skyndisóknum sínum, með Kaj Leo í Bartalsstovu fremstan í flokki. 

Uppskera FH-inga eftir 5 leiki eru tíu stig, er Ólafur ánægður með það?

„Þetta er bara það sem maður fær, stigin eru afleiðingar frammistöðunnar, það er klárt mál að við erum ekki sáttir með að fá eitt stig úr þessum leik en ég verð að vera það fljótlega. Tíu stig er ágætt en ég hefði viljað vera með tólf.“

Ólafur er nýkominn til baka í Pepsi-deildina eftir dvöl í Danmörku, hvað finnst honum um deildina heilt yfir?

„Eins og ég hef sagt einhvers staðar annars staðar er skemmtilegt „spirit“ í þessari deild. Öll liðin leggja sig vel fram og menn gera sitt besta. Það er mikið talað um það að margir stríðsmenn séu í deildinni, ég væri líka til í að umræðan myndi fara inn á það hvað menn geta í fótbolta. Maður þarf aðeins að venja sig við það að meira er talað um stríðsmenn heldur en leik og leikstíl,“ sagði Ólafur.

Ólafur er með breiðan hóp í höndunum sem inniheldur mikið af uppöldum FH-ingum, er hann ekki sáttur með hópinn sem hann hefur í höndunum?

„Ég er mjög ánægður með hópinn og ég efast ekki um það að strákarnir í leiknum ætluðu sér að vinna þennan leik og lögðu sig 100% fram. Það er samkeppni og þeir sem hafa verið að koma inn á hafa skilað fínu. Frammistaðan í þessum leik, ef þú hefðir talað við mig og við hefðum unnið hann 1:0 þá var frammistaðan prýðileg og þess vegna er ég ósáttur við að vinna hann ekki,“ sagði Ólafur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert