Hólmar skoraði í síðustu heimsókn fyrir 14 árum

Hallgrímur Mar Steingrímsson og Bojan Stefán Ljubicic í leik KA …
Hallgrímur Mar Steingrímsson og Bojan Stefán Ljubicic í leik KA og Keflavíkur á Akureyrarvelli í 1. deildinni fyrir tveimur árum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þegar KA tekur á móti Keflavík á Akureyrarvelli í fimmtu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld er það í fyrsta skipti í fjórtán ár sem þessi félög mætast í efstu deild.

Þau voru síðast bæði í deildinni árið 2004 og þá höfðu Keflvíkingar betur í báðum leikjum liðanna. Þau mættust í fyrstu umferðinni á Akureyrarvelli. Hreinn Hringsson kom KA yfir en Jónas Guðni Sævarsson og Hólmar Örn Rúnarsson svöruðu fyrir Keflavík og tryggðu liðinu 2:1 sigur.

Hólmar er enn í liði Keflavíkur og skoraði einmitt glæsilegt mark í síðasta leik liðsins. Spurning hvort hann hrellir KA-menn aftur í þetta sinn?

Seinni leikur liðanna árið 2004 fór fram í Keflavík og þar tryggði Þórarinn Kristjánsson heimamönnum annan sigur, 1:0.

Félögin mættust hinsvegar í 1. deild árið 2016 og gerðu þá tvívegis jafntefli, 0:0 í Keflavík og 1:1 á Akureyri. Í leiknum fyrir norðan náði Elfar Árni Aðalsteinsson að jafna fyrir KA úr vítaspyrnu í uppbótartíma eftir að Guðmundur Magnússon, núverandi leikmaður Fram, hafði komið Keflavík yfir.

Fyrir leikinn í kvöld er KA í 9. sæti deildarinnar með 4 stig en Keflvíkingar sitja á botninum með eitt stig, sem þeir fengu gegn Stjörnunni í fyrstu umferð deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert