Fellur lítið með okkur og allt á móti

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, er ósáttur með byrjun liðsins á …
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, er ósáttur með byrjun liðsins á Íslandsmótinu í knattspyrnu. mbl.us/Eggert Jóhannesson

„Ég er vonsvikinn eftir þennan leik og það var algjör óþarfi að tapa þessum leik hér í kvöld. Mér fannst við alls ekki verri aðilinn í þessum leik en við gleymdum okkur nokkrum sinnum og svona getur fótboltinn verið grimmur,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir 2:1 tap liðsins gegn Grindavík í 5. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

„Mér fannst við ekkert síðri en Grindvíkingarnir en það þýðir ekki að tala um það. Við töpuðum leiknum og það eru vonbrigði. Þessi uppskera eftir fyrstu fimm umferðirnar eru mjög rýr, það er ekkert flóknara en það en ég get lítið annað gert en að taka því. Auðvitað hefði ég viljað vera með fleiri stig, það gefur augaleið.“

Valsmenn sitja í áttunda sæti deildarinnar með 6 stig eftir fyrstu fimm umferðirnar og er nú fimm stigum frá toppliði Breiðabliks og segir Óli að hlutirnir séu ekki að falla með liðinu þessa dagana.

„Það virðist vera þannig að það fellur ekkert með okkur á meðan það fellur allt á móti okkur. Það gerist stundum í fótbolta, að menn lendi í smá brekku en þá reynir á okkur sjálfa og fólkið allt í kringum okkur og hvernig við vinnum út úr því,“ sagði þjálfarinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert