Tímamótamark Katrínar

Katrín Ásbjörnsdóttir skallar boltann í mark Grindavíkur og skorar 1.000. ...
Katrín Ásbjörnsdóttir skallar boltann í mark Grindavíkur og skorar 1.000. mark Stjörnunnar í efstu deild. mbl.is/Eggert

Katrín Ásbjörnsdóttir framherji úr Stjörnunni skoraði tímamótamark í kvöld þegar hún kom Garðabæjarliðinu yfir snemma leiks gegn Grindavík í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu.

Katrín skoraði þar þúsundasta mark Stjörnunnar í efstu deild frá upphafi og aðeins þrjú félög hafa áður náð þeim markafjölda í deildinni. Valur hefur skorað 1.806 mörk, Breiðablik 1.718 og KR 1.402.

Stjarnan lék fyrst í deildinni árið 1973, á öðru tímabili eftir að Íslandsmót kvenna hófst, og var með til 1976. Félagið var aftur í efstu deild á árunum 1987 til 1989 og hefur verið þar samfleytt frá 1992, eða 27 ár í röð að þessu tímabili meðtöldu.

Markið dugði þó ekki til þess að Stjarnan fengi eitthvað út úr leiknum því liðið tapaði afar óvænt fyrir Grindvíkingum, 2:3.

mbl.is