Magnús tryggði Njarðvík stig á Skaganum

Njarðvíkingar fagna fyrsta marki leiksins.
Njarðvíkingar fagna fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Sigurður Elvar

Nýliðar Njarðvíkur stöðvuðu sigurgöngu ÍA í Inkasso-deild karla í knattspyrnu í kvöld á Norðurálsvellinum á Akranesi. Magnús Þór Magnússon tryggði Njarðvík eitt stig þegar hann skoraði jöfnunarmarkið á 85. mínútu með glæsilegum skalla eftir hornspyrnu. Leikurinn endaði 2:2 en ÍA er jafnt HK á toppi deildarinnar  með 10 stig en Njarðvík situr nú í 5 sæti með 5 stig.

Gestirnir frá Njarðvík komust yfir strax í upphafi leiksins þar sem Stefán Birgir Jóhannesson skoraði á 4. mínútu. Markið skrifast á Árna Snæ Ólafsson fyrirliða ÍA en markmaðurinn náði ekki að verja frekar laust skot frá Stefáni. Boltinn fór á milli fóta Árna og inn í markið.

Stefán Teitur Þórðarson náði að jafna metin á 35. mínútu með góðu skoti eftir frábæran undirbúning Andra Adolphssonar - en Andri hafði komið inná sem varamaður aðeins nokkrum augnablikum áður. Staðan var jöfn í hálfleik en Njarðvíkingar fengu fín færi í fyrri hálfleik sem þeir hefðu getað nýtt betur.

Andri var sjálfur á ferðinni þegar hann kom ÍA í 2:1 með mögnuðu viðstöðulausu skoti á 65. mínútu. Skagamenn voru meira með boltann en skyndisóknir Njarðvíkinga voru oft hættulegar.

Á 72. mínútu fengu Njarðvíkingar vítaspyrnu sem Andri Fannar Freysson tók. Andri þrumaði boltanum í þverslánna og Skagamenn sluppu þar fyrir horn. Þrátt fyrir margar tilraunir á lokakafla leiksins náðu Skagamenn ekki að bæta við fleiri mörkum - og Magnús Þór sá til þess að gestirnir fóru heim með eitt stig frá Akranesi.

Aðstæður á „Flórída-Skaganum“ voru afar krefjandi. Blautur og þungur völlur og hvassviðri gerðu leikmönnum erfitt um vik. Arnar Már Guðjónsson átti fínan leik hjá ÍA á miðjunni og skilaði sínu hlutverki vel. Magnús Þór var sterkur í liði Njarðvíkur ásamt markverðinum Robert Blakala. 

ÍA 2:2 Njarðvík opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert