Ævintýraleg frumraun Ólafs Karls

Sigurbjörn Hreiðarsson og Ólafur Jóhannesson
Sigurbjörn Hreiðarsson og Ólafur Jóhannesson mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ólafur Karl Finsen var nokkuð rólegur þegar ævintýralegri frumraun hans fyrir Val á Íslandsmótinu í knattspyrnu var lokið á Hlíðarenda í kvöld. Hann leyndi því þó ekki að sætt hefði verið að skora sigurmarkið í 2:1 sigrinum á Breiðabliki eftir að hafa komið inn á sem varamaður þremur mínútum fyrr. 

„Þetta var mjög ljúft og mjög ljúft að fá þrjú stig. Við þurftum þvílíkt á þessum stigum að halda,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is en hann kom inn á á 86. mínútu.

 „Maður kemur inn á en er ekki að hugsa of mikið um stöðuna í leiknum heldur reynir að hlaupa og elta boltann. Það hefur verið smá súrt að koma ekki við sögu í fyrstu fimm leikjunum en enginn pirringur eða óþolinmæði. Ég var ekki í besta leikforminu því ég missti svolítið úr á undirbúningstímabilinu. Leikmannahópurinn er stór og ég skil að menn sem eru í betra leikformi séu að spila. Hef því verið rólegur yfir þessu. Auðvitað er frábært að stimpla sig svona inn en sérstaklega þar sem við þurftum á þremur stigum að halda,“ sagði Ólafur Karl ennfremur. 

Ólafur Karl Finsen
Ólafur Karl Finsen mbl.is/Jóhann Ingi Hafþórsson

„Losuðum um hömlur“

„Í seinni hálfleik fannst mér við vera Valsliðið sem við getum verið en ekki liðið sem ekki hefur mætt nægilega vel til leiks síðustu þrjá vikur eða svo. Mér fannst þetta koma hjá okkur í dag. Við losuðum um hömlur og sýndum alveg geggjaðan karakter,“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson aðstoðarþjálfari Vals. 

Breiðablik hafði 1:0 yfir að loknum fyrri hálfleik og Blikarnir spiluðu þá oft vel úti á vellinum. Hvað fór í gegnum hugann hjá Sigurbirni að loknum fyrri hálfleik? „Mér fannst við ná vopnum okkar síðasta korterið í fyrri hálfleik. Þá fannst mér við ná ágætis taki á þeim og herjuðum á þá þrátt fyrir að þeir væru náttúrlega alltaf hættulegir í skyndiupphlaupum. Fyrir ári síðan spiluðum við á móti Breiðabliki í Kópavoginum og unnum einnig þann leik eftir að hafa verið 1:0 undir í hálfleik. Við fórum yfir það en þá unnum við einnig leikinn á lokamínútunum. Við ákváðum að vinna með þætti sem gengu vel undir lok fyrri hálfleiks og það gekk einnig vel í síðari hálfleik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert