Glappaskot í markinu í botnslagnum

Einar Orri Einarsson, Keflvíkingur, með boltann í dag.
Einar Orri Einarsson, Keflvíkingur, með boltann í dag. Víkurfréttir/Páll Ketilsson

ÍBV lyfti sér af botni Pepsi-deildar karla í knattspyrnu eftir 3:1-útisigur á Keflavík í 6. umferðinni í dag.

Sindri Snær Magnússon, fyrirliði ÍBV, kom Eyjamönnum í forystu á 17. mínútu með skalla á fjærstönginni eftir aukaspyrnu Jonathan Franks og urðu mörkin ekki fleiri í annars ágætum fyrri hálfleik.

Enginn Jeppe Hansen var í liði Keflavíkur í dag vegna meiðsla og munaði svo sannarlega um hann í sóknarleik liðsins. Vond staða versnaði svo þegar Sigurbergur Elísson var borinn af velli snemma í síðari hálfleik vegna meiðsla.

Sigurður Grétar Benónýsson tvöfaldaði svo forystu ÍBV á 69. mínútu eftir slæm mistök Sindra Kristins Ólafssonar í marki Keflavíkur. Sindri þrumaði boltanum í Sigurð sem slapp þar með einn í gegn og skoraði í autt markið.

Heimamenn voru þó ekki dauðir úr öllum æðum og minnkuðu muninn örskömmu síðar. Það gerði Lassa Rise með föstu skoti á nærstöngina sem Halldór Páll Geirsson réði ekki við í markinu.

Meira gátu Keflvíkingar ekki gert og Sindri Snær innsiglaði sigur ÍBV með sínu öðru marki undir lok leiks eftir sendingu frá Kaj Leo í Bartalsstovu. ÍBV er þar með búið að vinna sinn fyrsta leik og lyftir sér af botninum. Keflvíkingar færa sig hins vegar í botnsætið og eru nú einir án sigurs eftir sex umferðir.

Keflavík 1:3 ÍBV opna loka
90. mín. Leik lokið Eyjamenn lyfta sér af botninum með sínum fyrsta sigri í sumar! Keflavík er aftur á móti nú í botnsætinu, enn án sigurs.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert