Þetta er ósanngjarnt og mjög sárt

Bojana Besic
Bojana Besic mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stóran hluta leiksins spiluðum við vel,“ sagði Bojana Besic, þjálfari KR, í samtali við mbl.is eftir 2:0 tap liðsins fyrir Breiðablik i í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Við vorum betri í seinni hálfleik en í þeim fyrri, vorum með betra skipulag í vörninni og spiluðum bara betur. En enn og eftir erum við að fá rosalega ódýr mörk á okkur, bæði komu úr föstum leikatriðum og það er mjög leiðinlegt,“ sagði Bojana.

Blikar pressuðu mun meira í leiknum en náðu ekki að gera út um hann fyrr en í lokin. Eins og Bojana segir komu bæði mörkin úr föstum leikatriðum. Fyrst skoraði Agla María Albertsdóttir eftir aukaspyrnu og svo Berglind Björg Þorvaldsdóttir eftir hornspyrnu.

„Þegar þú ert búin að verjast vel og skipulega þá er það bara ósanngjarnt að fá á sig svona mörk. Þetta er mjög sárt. Allir leikmenn hlupu á fullu og gera allt vel en svo gerist eitthvað svona, við klikkum smá og þá er komið mark. Við erum minna liðið í leikjum eins og þessum en erum alltaf að reyna. Það hefur verið stígandi í þessu hjá okkur en föstu leikatriðin eru bara að drepa okkur. Það er eitthvað sem við þurfum að laga,“ sagði Bojana

KR er með þrjú stig eftir fimm leiki og það er ekki á pari við væntingar hjá Bojönu.

„Ég myndi vilja vera með sex stig, ef ekki fleiri. En svona er fótboltinn. Við vissum að þetta yrði erfitt en við reynum hvað við getum að safna stigum. Það eru ennþá 13 leikjum eftir og ég er viss um að við munum fara að safna stigum,“ sagði Bojana Besic við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert