Breiðablik áfram í bikarnum

Finnur Orri Margeirsson, miðjumaður KR, í baráttunni við Kolbein Þórðarson, …
Finnur Orri Margeirsson, miðjumaður KR, í baráttunni við Kolbein Þórðarson, varnarmann Blika, í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik sigraði KR, 1:0, í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. Blikar eru þar með komnir í 8-liða úrslit en KR er úr leik.

Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og Oliver Sigurjónsson kom þeim yfir á 5. mínútu. Boltinn barst til hans frá varnarmanni rétt utan vítateigs og Oliver þrumaði boltanum í vinstra hornið.

Eftir markið voru KR-ingar meira með boltann, án þess þó að skapa sér eitt einasta færi. Skyndisóknir Blika voru hættulegar og þurfti Sindri Snær Jensson í marki KR nokkrum sinnum að verja.

Á lokamínútu hálfleiksins meiddist Sindri í samstuði við sóknarmann Blika og þurfti að bera hann af leikvelli. Skömmu síðar var flautað til hálfleiks, Blikar með eins marks forystu.

Fátt markvert gerðist í seinni hálfleik þangað til rúmlega 20 mínútur voru til leiksloka. Þá voru Blikar að komast í álitlega skyndisókn þegar Arnór S. Aðalsteinsson braut á Gísla Eyjólfssyni. Arnór fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt en hann hafði fengið fyrra gula spjaldið á 45. mínútu.

Belgíski varnarmaðurinn Jonathan Hendrickx var borinn af leikvelli þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Hann hneig skyndilega niður og var kallað eftir lækni úr stúkunni. Vallarþulurinn á Kópavogsvelli tilkynnti að Hendrickx væri með meðvitund og yrði fluttur á spítala.

Manni færri reyndu KR-ingar sit besta til að jafna metin en tókst það ekki. Breiðablik er því komið í 8-liða úrslit í bikarkeppninnar.

Breiðablik 1:0 KR opna loka
90. mín. Elfar Freyr Helgason (Breiðablik) fær rautt spjald Fékk rautt spjald fyrir tuð eftir leik.
mbl.is