„Riðill Íslands einn sá erfiðasti“

Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari Norðmanna í knattspyrnu.
Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari Norðmanna í knattspyrnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er afskaplega notalegt að vera kominn aftur til Íslands. Ég hitti nokkur úr starfsliðinu hjá KSÍ í gær. Eins og ég hef sagt áður þá átti ég afar góðan tíma á Íslandi,“ sagði Svíinn Lars Lagerbäck í samtali við mbl.is í Kópavoginum í dag þar sem hann stýrði æfingu hjá norska landsliðinu. 

Ísland og Noregur mætast í vináttulandsleik á Laugardalsvelli á morgun. Munu lærisveinar Lagerbäck fara gætilega gegn HM-förunum íslensku sem eru á leið á HM í Rússlandi? 

„Ég munum reyna hvað við getum til að vinna leikinn. Leikurinn er mikilvægur fyrir okkur í mínum huga vegna þess að við viljum halda áfram að bæta okkur. Ég vil auðvitað ekki að mínir leikmenn spili gróft. Þess óska ég aldrei. Íslendingar vilja einnig vinna leikinn og þar af leiðandi verður leikurinn sjálfsagt jafn og erfiður. Ég vona sannarlega að enginn meiðist í leiknum. Ég sá að Laugardalsvöllur er ekki upp á sitt besta út af rigningum í maí en yfirleitt hefur mér fundist völlurinn frábær. Við þessar aðstæður getur skapast sú hætta að menn séu aðeins of seinir í návígin,“ sagði Lagerbäck.

Spurður úr í riðil Íslans á HM sagði Svíinn að Ísland væri augljóslega í mjög erfiðum riðli. „Þegar ég fylgdist með drættinum þá þótti mér strax sem riðillinn væri einn sá sterkasti í keppninni. Íslendingar voru óheppnir að því leyti en þessu geta einnig fylgt kostir. Ísland fer inn í keppnina sem lið sem ekki er talið að komist áfram úr riðlinum. En eins og hugarfarið er í íslenska hópnum þá eiga þeir möguleika en deila má um hversu miklir þeir eru. Ísland er ekki líklegast til að vinna riðilinn en það hefur sýnt sig að þetta lið má aldrei vanmeta. Vinnusemin, skipulagið og hugarfarið er einfaldlega þess eðlis að enginn er öruggur um sigur gegn Íslandi.“

Áskorun bíður Íslendinga á næstu árum

Lagerbäck fylgdist fullur aðdáunar með frammistöðu íslenska liðsins í undankeppni HM. „Ég var virkilega hrifinn. Frammistaðan var stórkostleg. Liðið átti fremur slæman leik gegn Finnum úti og hafði heppnina með sér gegn Finnum heima. Að öðru leyti var ég mjög hrifinn af íslenska liðinu enda náði það frábærum úrslitum,“ sagði Lagerbäck. 

Leikmannahópur Íslands er með einn hæsta meðalaldur þeirra sem leika á HM að því er virðist. Telur Lagerbäck að endurnýjun þurfi að fara fram í næstu undankeppni?

 „Slíkt er æskilegt svona yfirleitt. Í liðinu eru nokkrir leikmenn yfir þrítugt og alla jafna gefa menn eitthvað eftir þegar þeir eru komnir yfir þrítugt. Ef þeim tekst að halda dampi þá geta þeir auðvitað spilað áfram fyrir landsliðið. Ef maður horfir tvö til þrjú ár fram í tímann þá bíður líklega sú áskorun að endurnýja íslenska landsliðið upp að einhverju marki og fá yngri leikmenn inn í liðið. Ég hef ekki rætt þetta sérstaklega við Heimi en ef til vill tók hann inn unga leikmenn núna vegna þess að þeirra bíði ábyrgð í landsliðinu á næstu árum,“ sagði Lars Lagerbäck.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert