„Við vorum grimmir og grófir“

Baldur Sigurðsson í baráttunni við Andra Rafn Yeoman á Kópavogsvelli …
Baldur Sigurðsson í baráttunni við Andra Rafn Yeoman á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við vorum yfir í baráttunni, allan leikinn og mér fannst þeir aldrei ógna okkar marki fyrr en kannski rétt í lokin, sagði Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar eftir 1:0 sigur liðsins á Breiðabliki í 7. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

„Það var í raun bara klaufaskapur hjá okkur að vera ekki búnir að klára leikinn fyrr en heilt yfir er ég bara hrikalega sáttur með spilamennsku okkar í dag. Við mættum til leiks frá fyrstu mínútu gegn mjög öflugu Blikaliði og allir leikmenn liðsins eiga stórt hrós skilið. Við vorum grimmir og grófir og fengum nokkur spjöld þarna í byrjun. Þeir eru með mjög tekníska leikmenn innan sinna raða og við þurftum að taka fast á þeim til þess að ná þeim úr jafnvægi og það tókst í kvöld.“

Stjarnan spilaði leikkerfið 4-4-2 í kvöld og átti svör við öllum sóknaraðgerðum Blika sem virkuðu oft á tíðum ringlaðir í leiknum.

„Það er búið að vera mikið leikjaálag að undanförnu en vinnuframlagið í dag var til fyrirmyndar. Við vorum öflugir að loka á þá og við mættum til leiks með gott hugarfar. Þetta hefur verið á mikilli uppleið eftir Valsleikinn og það er góður stígandi í þessu hjá okkur og ég er mjög bjartsýnn með framhaldið,“ sagði fyrirliðinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka