„Frammistaðan fyrir neðan allt“

Kristján Guðmundsson (t.h.)
Kristján Guðmundsson (t.h.) Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Kristján Guðmundsson var ekki sáttur með spilamennsku sinna manna eftir 2-1 tap gegn Víking Reykjavík. Í samtali við mbl.is sagði hann að sínir menn hefðu ekki verið komnir niður á jörðina eftir að hafa unnið tvo leiki.

„Það var enn þá eins og við værum að gæða okkur á konfektmolunum eftir þessa sigurleiki. Við héldum greinilega að við værum of góðir eða að eitthvað hafi klikkað í undirbúningnum fyrir þennan leik. Ég þarf bara að sjá hvort þetta sé mér að kenna eða hverjum þetta er að kenna. En þetta er skelfilegur leikur.“

Frammistaða Gunnars Heiðar var þó ljós punktur að mati Kristjáns. „Gunnar Heiðar er mættur á svæðið og byrjaður að skora. Hann á eftir að skora fleiri fyrir okkur og það er kannski það sem ég tek fyrst og fremst úr þessum leik.“

Hinn 15 ára Eyþór Orri spilaði síðustu fimm mínútur leiksins. Þetta er hans annar leikur fyrir ÍBV í Pepsí-deildinni og hafa sumir spurt sig hvort að þær mínútur sem hann er að fá geri honum einhvern greiða. Þegar Kristján var spurður út í þessa umræðu sagðist hann ekki hafa verið mikið var við hana.

„Eyþór Orri er efnilegur leikmaður og er hluti af okkar leikmanna hóp og hefur spilað töluvert hjá okkur á undirbúningstímabilinu og í bikarkeppninni í 32 liða úrslitum. Hann er bara einn af þeim sem er í 18 manna hóp hjá okkur. En við þurfum að hugsa vel um hann og tekið enga ábyrgð á því. Við erum að vinna með hann á hverjum einasta degi.“

Næsti leikur ÍBV er gegn Val sem verður fimmti innbyrðis leikur liðanna á þessu ári. Kristján segir að liðin gjör þekkja hvert annað og núna sé það í sínum verkahring að koma Valsmönnum á óvart og kveikja í sínum mönnum: „Við þurfum að finna eitthvað. Allaveganna þurfum við að vekja hópinn okkur eftir þessa frammistöðu sem var fyrir neðan allt.“

mbl.is