Jafnt fyrir norðan í fjörugum leik

Þór fær HK í heimsókn í dag.
Þór fær HK í heimsókn í dag. Ljósmynd/Ófeigur Lýðsson

Þór og HK mættust á Þórsvelli í 6.umferð Innkasso-deildar karla í knattspyrnu í  mögnuðum leik sem var að ljúka nú í þessu. Leiknum lauk með jafntefli, 2:2.

Fyrri hálfleikur var fínasta skemmtun. Liðin fóru þó rólega af stað. Á 16.mínútu leit fyrsta mark leiksins dagsins ljós og það var úr vítaspyrnu. Eftir hornspyrnu braut Sveinn Elías Jónsson á Kára Péturssyni og vítaspyrna dæmd. Bjarni Gunnarsson fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Heimamenn léku fyrri hálfleikinn vel og voru mikið mun meira með boltann. Þung sókn Þórsara undir lok fyrri hálfleiks endaði með því að Alvaro Montejo jafnaði leikinn. Hans sjötta deildarmark í sumar.  Staðan 1:1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var fjörugri en sá fyrri. Heimamenn héldu boltanum áfram vel og sköpuðu fleiri færi. Á 75. mínútu geystist  Jónas Björgvin upp völlinn og skoraði með góðu skoti utan teigs. Sex mínútum síðar jöfnuðu HK-ingar. Loftur Páll gerði sig þá sekan um slæm mistök í vörn Þórs sem Brynjar Jónsson nýtti sér.

Stuttu eftir það varð stórt atvik í leiknum. Heimamenn vildu fá víti og allt ætlaði að sjóða upp úr. Eftir löng fundarhöld dómara fengu Þórsarar víti en Sveinn Elías, fyrirliði þeirra fékk rautt spjald. Ármann Pétur Ævarsson  tók vítið en Arnar Freyr varði mjög vel í markinu.

Lokatölur 2:2 í frábærum leik. Heimamenn mega vera svekktir enda spiluðu þeir vel mest allan tíman. HK-ingar eru líklegast sáttari með stigið heldur en heimamenn. Eftir leikinn er HK í öðru sæti deildarinnar en Þórsarar eru í því þriðja.

Leiknismenn að vakna til lífsins

Leiknir R. vann öruggan 3:1-sigur á Magna í hinum leik deildarinnar í dag. Breiðhyltingar fóru vel af stað og skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins fyrir hálfleik. Sólon Breki Leifsson skoraði fyrstu tvö áður en Sævar Atli Magnússon bætti við.

Magnamenn minnkuðu muninn með marki frá Agnari Darra Sverrissyni snemma í síðari hálfleik en fleiri urðu mörkin ekki. Leiknir er því búið að vinna tvo leiki eftir slæma byrjun og situr í 10. sæti með sex stig en Magni er áfram á botninum með þrjú stig.

Þór 2:2 HK opna loka
90. mín. HK fær hornspyrnu
mbl.is