Mjög mikil dýfa hjá Grindvíkingnum

Oliver Sigurjónsson
Oliver Sigurjónsson mbl.is/Árni Sæberg

„Að mínu mati var þetta verðskuldað. Við fengum aragrúa af færum og vorum betri í leiknum," sagði Oliver Sigurjónsson, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur á Grindvíkingum í Pepsi-deild karla í fótbolta í dag. 

„Þeir komu aðeins á okkur í seinni hálfleik og héldu boltanum ágætlega en sköpuðu ekki mikið á meðan við vorum að skapa. Willum, Elli og Damir fengu allir færi til að skora og svo settum við hann í stöngina strax í byrjun seinni, þetta var svolítið stöngin út en samt 2:0."

Breiðablik vann sinn fyrsta sigur síðan í 3. umferð í dag og fór upp í toppsætið í bili hið minnsta fyrir vikið. 

„Það er stutt á milli liða í þessari deild og rosalega mikið af góðum liðum. Sigur kemur þér í toppbaráttu og tap kemur þér niður í botninn nánast. Það er frábært að vinna sigur í bleytunni í ekkert svakalega góðu veðri, það var fínt að fá þrjú stig."

Arnþór Ari Atlason fékk sitt annað gula spjald seint í leiknum fyrir mótmæli. Oliver var ekki sáttur við það. 

„Þetta var fyrir einhver öskur, það var mjög mikil dýfa hjá Grindvíkingnum og Arnþór var ósáttur. Við þurfum hins vegar að laga þetta, þetta var ódýrt. Hann kemur hins vegar sterkari til baka. 

mbl.is