Töluðum um að þetta væri núna eða aldrei

Ingibjörg í leiknum í dag.
Ingibjörg í leiknum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Slóvenarnir eru mjög góðir og kraftmiklir og hafa bætt sig mikið síðan við spiluðum við þá síðast. Það var erfitt að brjóta þær niður. Mér fannst við samt alltaf hafa þetta í höndunum á okkur,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir, leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, eftir 2:0-sigur á Slóveníu á Laugardalsvelli í kvöld.

Staðan í hálfleik var markalaus og var Ingibjörg mun ánægðri með frammistöðuna í síðari hálfleiknum.

„Við vildum keyra upp kantana, við vorum of mikið að hanga á boltanum í staðinn fyrir að fara einföldu leiðina. Í seinni hálfleik fórum við meira upp kantana og þá gekk betur þó mörkin hafi ekki beint komið upp úr því.“

„Við vorum aðallega gráðugri í seinni hálfleik og hugarfarið var betra. Við töluðum um það í hálfleik að þetta er núna eða aldrei og ef við ætlum að gera eitthvað í haust þurftum við að klára þetta.“

Ingibjörg viðurkennir að hugurinn hefur verið við leikinn við Þýskaland sem er 1. september næstkomandi. Það gæti orðið hreinn úrslitaleikur um hvor þjóðin fari í lokakeppni HM í Frakklandi á næsta ári.

„Við erum búnar að pæla í þessu í síðustu þremur leikjum að það séu leikir sem við þurftum að klára til að eiga skemmtilegt haust. Nú er úrslitaleikur við Þýskaland og þetta gæti ekki verið betra,“ sagði Ingibjörg að endingu.

mbl.is