Verðum í toppstandi í september

Sif Atladóttir varðist vel í kvöld.
Sif Atladóttir varðist vel í kvöld. mbl.is/Eggert

„Þetta hafðist, við töluðum um að við vildum fá þrjú stig úr þessum leik og byggja haustið fyrir okkur,“ sagði Sif Atladóttir, miðvörður knattspyrnulandsliðsins, eftir 2:0-sigur á Slóveníu á Laugardalsvelli í kvöld. 

Ísland fór upp í toppsæti 5. riðils með sigrinum, en íslenska liðið þurfti að hafa fyrir hlutunum í dag. 

„Ég verð að hrósa Slóveníu, þær hafa bætt sig heilmikið með komu nýs þjálfara. Þær eru með ótrúlega góða leikmenn en þurfa aðeins að stilla sig saman, það var gaman að sjá hvað þær hafa tekið miklum framförum. Þær voru að komast í færi núna sem þær komust ekki í síðast á móti okkur.“

Glódís Perla Viggósdóttir skoraði bæði mörk Íslands í leiknum í síðari hálfleik. 

„Ég hef mikla trú á þessu liði og við vissum að þetta tæki smá þolinmæði. Ég hafði alltaf trú á því að við myndum skora. Það var gaman að horfa á Glódísi, hún er frábær í teignum í dag.“

Næsti leikur landsliðsins er á móti Þýskalandi hér heima 1. september næstkomandi. Íslenska liðið tryggir sér sæti á lokamóti HM með sigri. 

„Við klárum þetta í kvöld og svo förum við í sitt hvora áttina. Maður heldur áfram að standa sig vel í deildinni úti og ef maður gerir það verður maður í toppstandi í september,“ sagði Sif Atladóttir að endingu. 

mbl.is