Aldrei boðlegt að tapa á Hásteinsvelli

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Mér leið eins og við værum að fara að setja mark, en samt gerum við aldrei atlögu að þeim, þetta er svekkjandi," sagði Sigurður Arnar Magnússon, liðsmaður ÍBV eftir svekkjandi 1:0-tap fyrir Val í Pepi-deildinni í fótbolta í kvöld.

„Við vorum að pressa á þá en fórum aldrei í gegn, ekki einu sinni. Það er sama hvort þetta er Valur eða eitthvað annað, það er aldrei boðlegt að tapa á Hásteinsvelli."

ÍBV spilaði ágætlega í leiknum, en það var lítil huggun í augum Sigurðar sem var svekktur eftir tapleik. 

„Þetta er ekki spurning um að gefa þeim alvöru leik, við viljum fá stig í þessu. Þeir skora eitt og við ekkert, það er ekki nógu gott. Það er augljóst að við viljum vera hærra í töflunni og með fleiri stig þó við séum ekki að horfa mikið á töfluna núna."

Sigurður er fæddur árið 1999 og er hann kominn í stórt hlutverk í liði ÍBV. 

„Ég er mjög ánægður með það, Kristján gefur mér traustið og ég er sáttur með það en ég vil sjá þetta fara að ganga betur," sagði hinn svekkti Sigurður Arnar að lokum. 

Sigurður Arnar Magnússon
Sigurður Arnar Magnússon VIKURFRETTIR,Víkurfréttir/Páll Ketilsson
mbl.is