Sérstök tilfinning að mæta í Kórinn

Jóhannes Karl Guðjónsson var að mæta fyrrverandi lærisveinum sínum í …
Jóhannes Karl Guðjónsson var að mæta fyrrverandi lærisveinum sínum í HK í kvöld en hann þjálfar nú ÍA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Bæði lið mættu af miklum krafti inn í þennan leik og mér fannst það heppnast ágætlega hjá okkur,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA eftir 0:0 jafntefli liðsins gegn HK í Inkasso-deild karla í knattspyrnu í kvöld en um sann­kallaðan toppslag var að ræða enda ÍA í efsta sæti deild­ar­inn­ar og HK í því öðru. 

„Við vorum að reyna pressa þá framarlega á vellinum og vinna boltann af þeim þar sem mér fannst takast vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við vorum hálfgerðir klaufar að ná ekki að skapa meira útfrá því. Við vorum að fá fín tækifæri, oft þrír á þrjá en tókst ekki að nýta það nægilega vel. Í seinni hálfleik var nálgunin aðeins öðruvísi. Við ætluðum okkur að vera framar á vellinum en menn lögðu mikið á sig og það var aðeins farið að draga af okkur þegar leið á leikinn. Þeir ógnuðu okkur aðeins þarna undir restina, án þess þó að ná að skapa sér einhver færi. Þeir væru mikið að dæla háum boltum inn í teiginn og mér fannst við höndla það mjög vel.“

Jóhannes Karl var að mæta sínum gömlu lærisveinum en hann þjálfaði HK í Inkasso-deildinni, síðasta sumar og gerði flotta hluti með liðið.

„Þetta var sérstök tilfinning að mæta hérna í Kórinn og spila á móti HK en um leið og leikurinn byrjar þá er maður bara að hugsa um það að reyna stýra sínu liði. Það er hins vegar alltaf gaman að koma hingað, það er fullt af góðu fólki hérna í kringum klúbbinn og flottir fótboltamenn í þessu HK liði og leikurinn var skemmtilegur að vissu leyti, þótt hann hafi endað með markalausu jafntefli,“ sagði Jóhannes að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert