„Davíð sagði að hann hafi verið togaður niður“

Jónatan Ingi Jónsson leikmaður FH skoraði tvö mörk í kvöld.
Jónatan Ingi Jónsson leikmaður FH skoraði tvö mörk í kvöld. Valgardur Gislason

„Við erum mjög ánægðir með að taka þrjú stig loksins. Við erum búnir að gera nokkur jafntefli í röð þannig að það var kominn tími á sigur. Síðan var líka mikilvægt að halda hreinu. Við vorum mjög solid og gáfum ekki mörg færi á okkur,“ sagði Jónatan Ingi Jónsson leikmaður FH eftir 3:0 sigur FH á Víkingi R. í Kaplakrika í kvöld. 

FH hafði fyrir leikinn gert fjögur jafntefli í röð í deildinni og Víkingar byrjuðu leikinn í kvöld af krafti. En eftir að FH komst yfir litu þeir aldrei um öxl í kvöld.

„Við erum búnir að byrja leiki frekar illa á tímabilinu og höfum oft þurft að koma tilbaka í leikjum. Þannig að það var gott að komast yfir núna fyrst,“ sagði Jónatan.

FH komst yfir með vítaspyrnu sem mörgum þótti ansi harður dómur. Sá Jónatan hvað gerðist?

„Ég sá ekki atvikið en Davíð sagði að hann hafi verið togaður niður þannig að þetta var víti.“

Jónatan skoraði tvö mörk í dag og undir lok leiksins fékk FH aukaspyrnu á vítateigslínunni sem hann og Steven Lennon stilltu sér upp við. Það var svo Lennon sem tók spyrnuna. Kitlaði ekkert fyrir Jónatan að fá að taka spyrnuna og fullkomna þrennuna?

„Auðvitað vildi ég taka hana en þetta er auðvitað liðsíþrótt og þetta snýst um að taka þrjú stig,“ sagði Jónatan léttur í lokin.

mbl.is