Er að taka stoðsendingarkónginn

Guðjón Baldvinsson á fleygiferð í kvöld.
Guðjón Baldvinsson á fleygiferð í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Guðjón Baldvinsson lagði upp eitt mark og fiskaði víti í 2:1 sigri Stjörnumanna á KA í 9.umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta nú í kvöld. Mbl.is tók Guðjón tali eftir leik og hann var að vonum sáttur með sigurinn:

„Þetta voru erfiðar aðstæður, mikið rok og völlurinn kannski ekki upp á sitt besta. Gríðarlega sterkur sigur fyrir okkur. Sérstaklega að sýna það að við getum líka verið ofan á í baráttunni og unnið svona leiki.“

Aðspurður um eigin frammistöðu sagði Guðjón:

„Ég er bara að fara stefna á stoðsendingakónginn í staðinn fyrir markakónginn, held að Hilmar Árni taki það. En það er bara gaman að hjálpa liðinu og ná inn sigri á erfiðum útivelli það er bara fyrir öllu“

Stjörnumenn hafa verið á miklu skriði undanfarin misseri. Guðjón segir liðið geta unnið alla þegar Stjörnumenn eru á sínum degi.

„Eftir að við skiptum um leikkerfi þá hefur verið stígandi í þessu hjá okkur og ég held að við séum mjög erfiðir við að eiga á okkar degi. En við þurfum allir að vera 100% Til þess að eiga fyrir þessu. Við höfum verið það hingað til og þurfum bara að vera það áfram.“

mbl.is