„Mitt besta mark á Íslandi“

Sam Hewson.
Sam Hewson.

Sam Hewson var að vonum sáttur eftir að glæsimark hans tryggði Grindavík 1:0-sigur í baráttumiklum en tíðindalitlum leik gegn Fjölni í Grafarvoginum í 9. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Leikurinn var í járnum allt fram á 85. mínútu þegar Hewson sneri boltann glæsilega í hornið utan teigs en hann var heilt yfir ánægður með frammistöðu Grindavíkurliðsins.

„Við reyndum að halda boltanum og vera þolinmóðir. Við vissum að það yrði erfitt að brjóta þá niður. Að lokum þurftum við smá heppni og sem betur fer var ég á réttum stað.“

Fjölnir tapaði illa í síðustu umferð, 6:1, gegn Stjörnunni og telur Hewson að það hafi verið erfitt að mæta þeim í kjölfar þess.

„Ég held það. Þeirra þjálfari hefur beðið þá um að koma til baka og taka þrjú stig í kvöld, en við töpuðum líka í síðustu umferð, gegn Breiðabliki, og vildum stigin líka. Við lögðum hart að okkur og erum hæstánægðir með sigurinn.“

Grindavík er í 3. sæti, aðeins stigi frá toppliði Vals, en Hewson er ekki að spá of mikið í toppbaráttunni.

„Það er gott að vera þarna uppi en við tökum bara einn leik í einu. Við leggjum hart að okkur í hverjum leik og svo sjáum við til, hverju það skilar.“

Að lokum sagðist hann ekki hafa skorað betra mark á Íslandi.

„Ég hef ekki skorað eins mörg og ég ætti að gera en ég held að þetta sé mitt besta á Íslandi. Ég vonast til að skora nokkur í viðbót í sumar en ég er ánægður með þetta.“

mbl.is