Stjarnan heldur pressunni á toppliðunum

Guðjón Baldvinsson reynir skot að marki KA í kvöld.
Guðjón Baldvinsson reynir skot að marki KA í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og Stjarnan mættust á Akureyrarvelli í 9.umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í leik sem var að ljúka nú í þessu. Leiknum lauk með 2:1 sigri Stjörnunnar. Eftir leikinn eru Stjörnumenn með 16 stig en KA-menn með 8.

Fyrri hálfleikur var frekar rólegur og hvorugt liðið náði að skapa sér mikið af opnum færum. Eitthvað um hálffæri en ekki meira en það. Staðan 0:0 í hálfleik.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleik af miklum krafti og voru sterkari aðilinn til að byrja með. Það voru þó Stjörnumenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins. Guðjón Baldvinsson fór afar illa með Aleksandar Trninic í teignum, lagði boltann á Þorstein Má sem skoraði af stuttu færi.

KA-menn héldu þó áfram og aðeins 6 mínútum síðar jöfnuðu þeir leikinn. Ásgeir Sigurgeirsson fékk boltann, fíflaði fjóra varnarmenn Stjörnunnar og skoraði með góðu skoti. Virkilega snyrtilega gert.

Stjörnumenn komust þó aftur yfir stuttu seinna og aftur var það Trninic sem fór illa að ráði sínu gegn Guðjóni. Trninic braut á Guðjóni innan teigs og vítaspyrna réttilega dæmd. Hilmar Árni Halldórsson skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni. Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna en það tókst ekki.

Lokatölur á Akureyri 2:1 fyrir Stjörnuna. 

KA 1:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 1:2 sigri Stjörnunnar. KA-menn ganga svekktir af velli. Voru betri aðillinn í seinni hálfleik.
mbl.is