Þýðir ekki að gráta eða grenja

KA-menn fagna marki sínu í kvöld.
KA-menn fagna marki sínu í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Mér fannst þetta vera hörkuleikur, tvö góð lið að mætast í dag og mikil stöðubarátta eins og ég bjóst við,“ sagði Srdjan Tufegdzic þjálfari KA-manna eftir 1:2 tap gegn Stjörnunni í 9. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta á Akureyri í kvöld. „Mér fannst við aldrei vera lakari aðilinn jafnvel þótt við séum að spila við lið sem er yfirleitt að berjast um titla.“

„Ég er ósáttur við að við sofnum á verðinum í fyrsta markinu og okkur er strax refsað. Það er búið að vera okkar saga í sumar. Um leið og við gerum ein smá mistök þá er okkur refsað. Annars verð ég að sjá hvernig vítið var því mér fannst hann of fljótur að dæma. Eftir það kemur svipað atvik í okkar teig en eg verð að sjá þetta betur.“

KA-menn spiluðu vel í seinni hálfleik og settu mikla pressu á Stjörnumenn. Tufa var ánægður með það.

„Það var mikill vindur í fyrri hálfleik og Stjörnumenn voru að nýta það vel með þessum löngu boltum. Þetta var bara stöðug barátta um seinni boltann en mér fannst aldrei hætta við okkar mark. Svo í seinni hálfleik erum við að fá dauðafæri til að komast yfir og til að jafna leikinn.“

Þrátt fyrir dapurt gengi á tímabilinu er Tufa ekki á því að gefast upp.

„Við verðum bara að horfast í augu við þetta og halda áfram. Mæta með sama hugarfari á æfingasvæðinu og í leikjum og við þurfum bara að snúa þessu gengi við. Það þýðir ekkert að gráta eða grenja, við verðum bara að nýta fríið vel og mæta klárir eftir HM.

Srdjan Tufegdzic
Srdjan Tufegdzic mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert