Blikasigur eftir fjörugan seinni hálfleik

Kristín Dís Árnadóttir skallar boltann í burtu í leik liðanna …
Kristín Dís Árnadóttir skallar boltann í burtu í leik liðanna í kvöld. mbl.is/Valli

Breiðablik sem var í 2. sæti deildarinnar fyrir leik kvöldsins tók á móti FH sem vermir botnsætið í Pepsi-deild kvenna á Kópavogsvelli í kvöld. Breiðablik sigraði 3:1 og náði þar með tveggja stiga forskot á toppnum en Kópavogsliðið hefur nú unnið fyrstu sex leiki sína í deildinni.

Fyrri hálfleikurinn var jafn. Blikar voru örlítið betri en náðu ekki að skapa sér stór færi. 

Seinni hálfleikurinn byrjaði svipað og sá fyrri en þegar leið á hann litu mörkin dagsins ljós. Fyrst var það Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem kom Breiðabliki yfir á 67. mínútu með góðu marki af stuttu færi. FH-ingar jöfnuðu hins vegar aðeins tveimur mínútum síðar. Var það skot hjá Helenu Ósk Hálfdánardóttur sem fór af Kristínu Dís og í markið. Aðeins nokkrum mínútum síðar varð Hugrún Elvarsdóttir fyrir sama óláni þegar fyrirgjöf Ástu Eirar skaust í hana, yfir markmanninn og inn. Breiðablik var þá komið í 2:1.

Undir lokin þurftu leikmenn FH að sækja til að jafna og við það fengu sóknarmenn Breiðabliks meira svæði og það hentaði hraða þeirra vel. Agla María rak smiðshöggið á flotta Breiðablikssókn skömmu fyrir leikslok og þar við sat.

Breiðablik 3:1 FH opna loka
90. mín. Hanna Barker (FH) á skot sem er varið Gott skot! Reynir skot frá vinstri kanti á fjærstöng en Sonný slær boltann framhjá stönginni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert