Drátturinn leggst vel í Sigurbjörn

Drátturinn í forkeppni Meistaradeildarinnar leggst vel í Sigurbjörn.
Drátturinn í forkeppni Meistaradeildarinnar leggst vel í Sigurbjörn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fyrr í dag var dregið í forkeppni Meistaradeildarinnar í knattspyrnu þar sem Íslandsmeistarar Vals fengu norsku meistarana Rosenborg. Í viðtali við mbl.is sagði Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, að drátturinn legðist vel í Valsmenn:

„Þetta leggst bara vel í okkur. Það voru einhverjir fimm möguleikar og allt mjög erfið lið og þetta var einn af þeim. Mjög stutt ferðalag og þekkjum þetta aðeins. Þannig þetta er bara fínt.“

Íslenskum liðum hefur ekki vegnað vel í viðureignum sínum við Rosenborg í gegnum tíðina. KR tapaði til að mynda samanlagt 4:0 fyrir þeim árið 2015. Sigurbjörn sagðist vera meðvitaður um styrkleika Rosenborg: „Þetta er auðvitað atvinnumannalið. En það hræðir okkur ekkert þannig. Við vitum bara að við erum að fara í mjög erfiðan leik.“  

Þegar Sigurbjörn var spurður að því hvort að þátttaka Valsmanna í Meistaradeildina hefði einhver áhrif á liðið og hvernig leikirnir í Pepsí-deildinni yrðu settir upp sagðist hann svo  ekki vera. „Við horfum bara á hvern leik fyrir sig. Við erum ekkert farnir að pæla í þessu. Við eigum einhverja fjóra eða fimm mjög erfiða leiki fram að fyrri leiknum. Það kemur bara á seinni stigum. Auðvitað fer maður aðeins að kíkja á leikjaplanið hjá Rosenborg en ekkert meira en það.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert