Sanngjarnt jafntefli í Grindavík

Grindavík gerði jafntefli við HK/Víking í kvöld.
Grindavík gerði jafntefli við HK/Víking í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grindavík og HK/Víkingur áttust við í jöfnum og góðum leik á Grindavíkurvelli í kvöld í Pepsídeild kvenna. Bæði lið sóttu af miklum krafti og skiptust á að skapa sér góð marktækifæri en niðurstaðan varð jafntefli, 1:1.

Á 25. mínútu skoraði Hildur Antonsdóttir fyrir HK/Víking þegar hún komst inn á auðan sjó í vítateig Grindvíkinga og lagði hann í markið. Grindavík lagði ekki árar í bát og jafnaði metin á 30. mínútu þegar Rio Hardy skoraði með laglegu skoti eftir mikið harðfylgi.

Eftir jöfnunarmark Grindavíkur fjaraði örlítið undan leik liðsins og HK/Víkingur tók öll völd á vellinum. Þær héldu boltanum betur og settu mikla pressu á mark Grindvíkinga. Þrátt fyrir margar góðar sóknir tókst HK/Víking ekki að skora og því var staðan jöfn í hálfleik 1:1.

Það sama var upp á teningnum í seinni hálfleik. Liðin skiptust á að eiga 5-10 mínútna kafla þar sem þau voru með yfirhöndina áður en hitt liðið tók við keflinu og fór að sækja meira. Heilt yfir var HK/Víkingur meira með boltann en Grindavík voru alltaf skeinuhættar þegar þær unnu boltann með þær Rio Hardy og Rílany Silva fremsta í flokki. Niðurstaðan því sanngjarnt jafntefli í hröðum og skemmtilegum leik.

Grindavík er nú með 5 stig og HK/Víkingur 4 eftir sex leiki en liðin eru nú í sjöunda og áttunda sæti deildarinnar, fyrir ofan FH og KR sem sitja í botnsætunum með 3 stig.

Grindavík 1:1 HK/Víkingur opna loka
90. mín. Rio Hardy (Grindavík) á skot sem er varið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert