Hefðum ekki unnið þennan leik í byrjun sumars

Þorsteinn Már Ragnarsson.
Þorsteinn Már Ragnarsson. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Þetta var hörku leikur enda ÍBV hörku lið,“ sagði sáttur Þorsteinn Már Ragnarsson, leikmaður Stjörnunnar, eftir 2:1-sigur á ÍBV á Samsung-vellinum í 10. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. „Við vissum að þetta yrði erfitt en frábært að geta klárað þetta svona, að ná að setja tvö mörk.“

Þrátt fyrir aragrúa af færum gekk heimamönnum illa að setja sigurmarkið sem kom þó loks undir lok leiks. Þorsteinn var þó aldrei farinn að hafa áhyggjur.

„Nei, alls ekki. Ég veit að við skorum alltaf mörk og mér leið allan tímann þannig. Ég hafði engar áhyggjur af þessu. Þeir auðvitað vörðust vel en við skorum alltaf mörk.“

Stjarnan gerði mikið af jafnteflum í byrjun sumars en hefur nú loks náð að breyta þeim í sigra, liðið hefur unnið fjóra í röð.

„Þetta er að detta með okkur núna, loksins. Í byrjun sumars hefðum við örugglega ekki unnið þennan leik en núna erum við að vinna vel fyrir þessu.“

Með sigrinum skelltu Stjörnumenn sér á topp deildarinnar, tímabundið hið minnsta. „Bara þar sem við viljum vera,“ sagði Þorsteinn að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert