„Komum oft ryðgaðar undan pásum“

Valgarður Gíslason

„Það er búin að vera löng pása og einhvern veginn komum við alltaf smá ryðgaðar undan pásum. En við rifum okkur í gang í hálfleik og náðum í þrjú stig í dag,“ sagði Selma Sól Magnúsdóttir leikmaður Breiðabliks eftir 3:1 sigur á FH í kvöld.

Hverju breytti liðið í hálfleik?

„Hugarfarinu aðallega. Við vorum ekki alveg mættar með hausinn í leikinn í fyrri hálfleik en mættum mun ákafari í seinni hálfleikinn.“

Breiðablik fékk fjöldann allan af hornspyrnum í dag en náði ekki að nýta þær. Hvað veldur?

„Við erum búnar að æfa þau mikið en við eigum bara að gera betur.

FH vermdi botnsætið fyrir leikinn en hvernig bjóst Selma við að FH liðið myndi spila í dag?

„Við bjuggumst við að þær kæmu mjög sterkar inn í þennan leik og hugsa leikinn sem einhvers konar nýja byrjun á mótinu. Þær komu mjög ákafar til leiks, beint úr æfingaferð þannig að ég bjóst við mjög sterku liði.“

Breiðablik er nú á toppi deildarinnar og getur aukið forskotið á Þór/KA á sunnudaginn þegar liðin mætast á Akureyri.

„Það væri draumur að auka forskotið. Við mætum í leikinn á sunnudaginn til að vinna hann,“ sagði Selma að lokum.

Selma Sól Magnúsdóttir leikmaður Breiðabliks.
Selma Sól Magnúsdóttir leikmaður Breiðabliks. Valgarður Gíslason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert