„Við hefðum getað náð stigi úr þessum leik“

Halla Marinósdóttir.
Halla Marinósdóttir. Ófeigur Lýðsson

Mér fannst þetta flottur leikur hjá okkur. Við börðumst allan tímann og við hefðum getað náð stigi út úr þessum leik. Við hefðum kannski mátt halda boltanum aðeins meira en um leið og við fengum mark númer tvö í andliitið þá opnumst við og þær skora þriðja markið í kjölfarið,“ sagði Halla Marinósdóttir fyrirliði FH eftir 1:3 tap gegn Breiðablik í Pepsi-deild kvenna í kvöld.

„Ég var mjög ánægð með karakterinn að ná að jafna um leið og þær skoruðu. Við erum búnar að vera í æfingaferð og æfðum mjög vel í henni og mér fannst þetta flottur leikur svona eftir frí og ferðin þjappaði hópnum saman.“

„Baráttan var markmið númer eitt, tvö og þrjú. Við vorum með markmið að verja markið okkar allan tímann og það tókst vel framan af leiknum. En síðan kom mark þegar Berglind (Björg Þorvaldsdóttir) gerði vel í teignum. En ég var ánægð með að við náðum að setja eitt mark beint í smettið á þeim strax í kjölfarið.“

Byrjun tímabilsins hefur ekki verið góð hjá FH en hvernig lítur Halla á framhaldið?

„Við vorum á botninum fyrir þennan leik og við töluðum um það fyrir þennan leik að við værum að byrja upp a nýtt á núllpunkti og við ætlum að taka hvern leik fyrir sig og ná stigum úr honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert