Þróttur R. hafði betur í markaleik

Viktor Jónsson skoraði þrennu fyrir Þróttara í kvöld.
Viktor Jónsson skoraði þrennu fyrir Þróttara í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Haukar tóku á móti Þrótti Reykjavík í áttundu umferð Inkasso-deildar karla í knattspyrnu í kvöld en leiknum lauk með 5:2 sigri gestanna. Viktor Jónsson kom gestunum yfir á 19. mínútu og Daði Bergsson tvöfaldaði forystu gestanna á 42. mínútu. Indriði Áki Þorláksson minnkaði muninn fyrir Hauka á 50. mínútu áður en Viktor Jónsson bætti öðru marki sínu við og þriðja marki Þróttara á 61. mínútu.

Ólafur Hrannar Kristjánsson kom Þrótti í 4:1 á 71. mínútu áður en Daníel Snorri Guðlaugsson klóraði í bakkann fyrir heimamenn á 84. mínútu. Viktor Jónsson fullkomnaði svo þrennuna á 89. mínútu og lokatölur 5:2 fyrir Þrótt Reykjavík. Haukar eru í sjöunda sæti deildarinnar með 10 stig eftir fyrstu átta umferðirnar en Þróttur Reykjavík er að skríða upp töfluna og er liðið komið í fimmta sæti deildarinnar í 13 stig.

Níunda umferð Inkasso-deildarinnar fer fram dagana 27. til 30. júní en þá sækja Haukar ÍR heim í Breiðholtið og Þróttur R. fær Leikni R. í heimsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert