Ótrúlegt jafntefli toppliðsins

Afturelding er enn í toppsætinu.
Afturelding er enn í toppsætinu. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Topplið Aftureldingar gerði í dag ótrúlegt 2:2-jafntefli við Gróttu á heimavelli sínum í 2. deild karla í fótbolta.

Arnar Þór Helgason og Ásgrímur Gunnarsson komu Gróttu í 2:0 eftir 38 mínútur en rétt fyrir hálfleik fékk Kristófer Scheving beint rautt spjald hjá Gróttu. Staðan var hins vegar 2:0 fram að uppbótartíma, en þá skoraði Andri Freyr Jónasson tvö mörk og tryggði Aftureldingu stig. 

Þróttur Vogum hefði með sigri á Völsungi tekið toppsætið en Ásgeir Kristjánsson kom Völsungi yfir á Húsavík á 61. mínútu. Örn Rúnar Magnússon jafnaði fyrir Þrótt á 77. mínútu en Aðalsteinn Jóhann Friðriksson skoraði sigurmarkið úr víti á fimmtu mínútu uppbótartímans, mínútu eftir að hann brenndi af víti og 2:1-sigur Völsungs staðreynd. Völsungur er með 17 stig, stigi á eftir Þrótti og þremur á eftir Aftureldingu. 

James Mack skoraði sigurmark Vestra sem vann 1:0-sigur á Fjarðabyggð á heimavelli á meðan Víðir og Huginn gerðu 1:1-jafntefli í Garði. Milan Tasic kom Víði yfir á 48. mínútu en Milos Ivankovic jafnaði á 80. mínútu og þar við sat. 

Loks vann Höttur óvæntan 4:1-sigur á Kára á heimavelli. Ignacio Gonzalez og Brynjar Árnason komu Hetti í 2:0 en Andri Júlíusson minnkaði muninn á 60. mínútu. Miroslav Babic og Francisco Munoz tryggðu hins vegar öruggan sigur Hattar. 

Staðan:
Afturelding 20
Þróttur V. 18
Völsungur 17
Kári 15
Fjarðabyggð 13
Vestri 11
Grótta 11
Höttur 9
Víðir 6
Leiknir F. 5
Tindastóll 3
Huginn 1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert