Ég hefði viljað vinna alla leikina

Pétur Pétursson, þjálfari Valskvenna var sáttur með sigur sinna kvenna …
Pétur Pétursson, þjálfari Valskvenna var sáttur með sigur sinna kvenna í dag. Ljósmynd/Valur

„Ég er mjög ánægður með þennan sigur. Ég hefði viljað skora fleiri mörk en að sama skapi hefði ég viljað sleppa við að fá þessi mörk á mig í seinni hálfleik en heilt yfir er ég bara mjög sáttur með stelpurnar,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals eftir 4:2-sigur liðsins gegn FH í sjöundu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í Kaplakrika í dag.

Elín Metta Jen­sen skoraði tví­veg­is fyr­ir Val í dag og þá skoruðu þær Crystal Thom­as og Thelma Björk Ein­ars­dótt­ir sitt markið hvor. Það voru þær Jasmín Erla Inga­dótt­ir og Hanna Marie Bar­ker sem skoruðu mörk FH í leikn­um.

„Við fáum fjögur til fimm dauðafæri í upphafi síðari hálfleiks og við skjótum í stöngina og slánna og voru í raun bara mjög óheppnar að skora ekki. Svo fá þær eina aukaspyrnu, lengst utan á velli og þær skora upp úr henni. Þessu marki þeirra fylgir aukin pressa en við náum að setja þriðja markið áður en þær minnka muninn á nýjan leik. Heilt yfir fannst mér við miklu sterkari aðilinn í þessum leik og við áttum að klára leikinn miklu fyrr og betur.“ 

Valur er nú komið í annað sæti deildarinnar með 18 stig og er einu stigi á eftir Þór/KA sem er á toppnum með 19 stig.

„Guðrún Karítas er búin að standa sig frábærlega í undanförnum leikjum. Hún skoraði tvö á móti FH í bikarnum og tvö gegn KR í deildinni um daginn og það var kominn tími á að hún myndi byrja og hún stóð sig mjög vel í dag. Ég hefði viljað vera búinn að vinna alla þá leiki sem við höfum spilað en það gekk ekki eftir. Þetta er hörkudeild og það eru allir leikir í henni erfiðir, sama á móti hverjum þú ert að spila,“ sagði Pétur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert