„Ég var ekki falleg“

Lillý Rut Hlynsdóttir í baráttunni á Þórsvelli í dag.
Lillý Rut Hlynsdóttir í baráttunni á Þórsvelli í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Lillý Rut Hlynsdóttir spilaði eins og herforingi í vörn Þórs/KA í dag þegar Akureyrarliðið lagði topplið Blika að velli 2:0 í Pepsi-deild kvenna.

Þór/KA missteig sig í síðasta leik á Selfossi en þá var Lillý Rut ekki með. Samkvæmt lýsingum þá var hún það bólgin í andliti að hún leit út eins og Fílamaðurinn en hún var mætt aftur til leiks og steig ekki feilspor í mjög svo öruggri varnarlínu Akureyringa.

„Ég var ekki falleg en er öll að koma til,“ sagði Lillý Rut eftir leik.

„Þetta eru skemmtilegustu leikirnir, gegn hinum toppliðunum. Breiðablik er með mjög flott lið og þær hafa verið mjög öflugar í sumar og við vissum allar að þetta yrði hörkuleikur. Það var gott að halda hreinu og við vorum ekki í neinum vandræðum þar sem Blikar sköpuðu varla færi fyrr en rétt í blálokin. Þær voru meira með boltann en við spiluðum þetta bara rosalega vel. Nú er bara að halda þessu áfram. Það eru mikilvægir leikir framundan og við verðum að halda þessu skipulagi og þessari vinnusemi. Þá hef ég engar áhyggjur. Við ákváðum að fara í sömu uppstillingu og í fyrra þar sem okkur gekk mjög vel gegn stærri liðunum. Þetta gekk allt upp og varnarleikur okkar er búin að vera sterkur í sumar. Það er frábært að spila með þessum stelpum“ sagði Lillý Rut í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert